Home / Fréttir / Ítalir semja um milljarða fjárfestingar við Kínverja

Ítalir semja um milljarða fjárfestingar við Kínverja

 

Xi Jinping Kínaforseti og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.
Xi Jinping Kínaforseti og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.

Xi Jinping, forseti Kína, og Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, rituðu laugardaginn 23. mars undir samkomulag sem tengir Ítalíu inn í kínversku áætlunina sem kennd er við belti og braut. Hún er reist á fjárfestingaráformum Kínverja sem nema allt að 1 trilljón dollara. Ítalir eru fyrsta þjóðin í svonefndum G7-hópi til að gerast aðilar að áætluninni. Um það er ágreiningur innan stjórnar Ítalíu og jafnframt hafa vaknað efasemdir meðal ríkisstjórna ESB-landa.

Við athöfnina var ritað undir 29 samkomulagstexta af ýmsu tagi sem ítalskir fjölmiðlar meta á 5 til 7 milljarða evra. Viðskiptadagblaðið

Il Sole 24 Ore sagði að fjárfestingar Kínverja gætu numið allt að 20 milljörðum evra en þær takmörkuðust nú við lykilhafnirnar í Genúa og Trieste.

Ítölsk fyrirtæki fá verkefni innan fjárfestingaráætlunar Kínverja, þ. á m. Ansaldo sem smíðar túrbínur og Danieli sem gerði 1,1 milljarðs evru samning um smíði járn- og stálbræðslu í Azerbaijdsan.

Þá ætla Kínverjar að kaupa appelsínur af Ítölum og kínverska risaferðaskrifstofan Ctrip stofnar til samstarfs við ítalska aðila þar með flugvöllinn í Róm. Þá á að stuðla að vinarbæjatengslum og knattspyrnuleikjum í Kína þótt það kunni að brjóta í bága við reglur FIFA.

Matteo Salvini, formaður Bandalagsins og innanríkisráðherra, hafnaði þátttöku í kvöldverði sem forseti Ítalíu hélt til heiðurs Xi föstudaginn 22. mars. Salvini sagði að Ítalía ætlaði ekki að verða „nýlenda neins“ og varaði við því að innleiða 5G farsímatækni frá kínverska tæknirisanum Huawei. Luigi Di Maio, formaður hins stjórnarflokksins, Fimmstjörnu-hreyfingarinnar, er hallari undir samstarf við Kínverja.

Bandaríkjastjórn hefur varað bandamenn sína í Evrópu við því að Huawei kunni að nota 5G-tækni sína sem „bakdyr“ til njósna. Kínverjar segja þetta „siðlausar“ árásir.

Það er ekki aðeins samstarf um símatækni sem vekja spurningar um stefnu Ítala. Þeir virðast einnig hafa áhuga á að tengjast kínverska verkefninu „belti og braut“ sem gagnrýnendur telja að sé til framdráttar fyrir kínversk fyrirtæki. Hafa vestrænir bandamenn Ítala lýst undrun vegna þessa.

Mariastella Gelmini, flokksbróðir Silvio Berlusconis, fyrrv. forsætisráðherra Ítalíu, segir að hætta sé að ítölsk stjórnvöld verði „einskonar Trjóu-hestur í Evrópu“. Garrett Marquis, starfsmaður Bandaríkjaforseta, sagði á Twitter að það væri „engin þörf“ fyrir Ítala að leggja blessun sína yfir „kínverska hégóma mannvirkjaverkefnið“.

Tæknilega ríkir efnahagslegur samdráttur á Ítalíu sem er illilega skuldsett og hvetur sú staða til þess að stjórnvöld reyni að bæta stöðuna í samvinnu við Kínverja.

„Nú segjum við „Ítalía í fyrsta sæti“ á viðskiptasviðinu en erum bandamenn Bandaríkjamanna og í NATO og innan ESB,“ sagði Luigi Di Maio föstudaginn 22. mars.

Xi kemur til Evrópu viku eftir að ESB birti áætlun í tíu liðum sem reist er markvissari stefnu en áður gagnvart kínverskum stjórnvöldum. Þar er bent á að Kína sé keppinautur sambandsins en jafnframt stærsti viðskiptavinur.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Angela Merkel Þýskalandskanslari og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hitta Xi Jinping þriðjudaginn 26. mars og ræða við hann um viðskipti og loftslagsmál.

Kínverjar hafa sérstakan áhuga á að fjárfesta í ítölskum höfnum til að auðvelda flutning varnings til Evrópu. Ítalir eru varaðir við að lenda ekki í sömu stöðu og Grikkir sem töpuðu árið 2016 ráðum yfir höfninni í Piraeus í hendur kínverska risa-skipafélagsins Cosco.

Xi fer til Monakó sunnudaginn 24. mars og þaðan til Frakklands.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …