Home / Fréttir / Ítalir greiða atkvæði – sigri nei-menn verður nýtt uppnám innan ESB

Ítalir greiða atkvæði – sigri nei-menn verður nýtt uppnám innan ESB

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.

Þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram á Ítalíu sunnudaginn 4. desember. Um 50 milljónir manna greiða þá atkvæði um hvort breyta eigi stjórnskipun landsins með því að minnka vald öldungadeildar þingsins. Jafnaðarmaðurinn Matteo Renzi forsætisráðherra telur að breytingin sé nauðsynleg til að skapa forsendur fyrir markvissari stjórnarháttum. Baráttan fyrir atkvæðagreiðsluna snýst þó meira um Renzi og aðild Ítalíu að ESB en ítölsku stjórnarskrána.

Andstæðingar breytinganna segja að í þeim felist andlýðræðisleg aðgerð til að auka völd Renzis. Öflugasti andstæðingur hans er Beppe Grillo, leiðtogi Fimm stjörnu flokksins, M5S. Hann er mjög gagnrýninn á ESB-aðild Ítala. Tapi Renzi segist hann ætla að segja af sér sem forsætisráðherra og hætta pólitískum afskiptum.

M5S hefur þegar hafið undirbúning að fagnaði á götum úti yfir falli Renzis á sama hátt og gert var árið 2011 þegar Silvio Berlusconi hraktist úr embætti forsætisráðherra í miðri fjármálakreppunni sem ógnaði efnahag Ítala og alls evru-svæðisins.

Staða ítalska bankakerfisins er mjög veik og því er spáð að enn meiri hætta steðji að bönkum á barmi gjaldþrots ef stjórnarkreppa verður á Ítalíu við afsögn forsætisráðherrans.

Renzi hefur hert á hræðsluáróðri í þessa veru á lokadögum baráttunnar vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar: „Tökum við efnahagslega áhættu? Það er tilgangslaust að láta eins og svo sé ekki. Sigri já-menn styrkist Ítalía, sigri nei-menn er tekið stökk út í myrkrið, það sjá allir,“ sagði Renzi við Corriere della Sera föstudaginn 2. desember. Hann flutti lokaboðskap sinn í Flórens þar sem hann var borgarstjóri áður en hann varð næsta óvænt forsætisráðherra.

Beppe Grillo var síðasta dag baráttunnar í Tórínó, heimaborg Fíat-verksmiðjanna í norðvestur Ítalíu. Þar vann M5S sigur í borgarstjórnarkosningum í júní 2016.

Á bloggi sínu hvatti Grillo kjósendur til að „láta ekki heilann ráða atkvæði sínu“ vegna áhrifanna frá áróðri Renzis heldur fara eftir tilfinningum sínum gegn breytingunum. „Þær eru blekking, ekki falla fyrir þeim,“ skrifaði hann.

Á lokadögunum lýsti Renzi von um að hann nyti stuðnings meirihluta Ítala sem byggju í öðrum löndum og greiddu atkvæði utankjörstaðar, þetta eru um 4 milljónir manna og er talið að um 40% þeirra hafi kosið þegar lokað var kjörstöðum erlendis fimmtudaginn 1. desember. Í blaðinu Repubblica sagði Renzi: „Ef já-ið fær stuðning tveggja þriðju Ítala erlendis kann okkur að takast þetta.“

Nei-menn telja ólöglega hafa verið staðið að dreifingu atkvæðaseðla til Ítala utan landamæra Ítalíu. Er deilan um það mál óleyst og kann að fara fyrir dómstóla. Nei-menn treysta á að íbúar Rómar, Mílanó, Tórínó og Napólí hafni tillögum Renzis.

Skoðanakannanir eru bannaðar síðustu tvær vikurnar fyrir kjördag. Ef marka má spár þeirra sem leggja undir fé í veðmálum eru 75% líkur á að nei-menn vinni.

Ýmislegt hefur hins vegar bætt stöðu Renzis á lokadögunum, til dæmis tókst miðvikudaginn 30. nóvember að gera kjarasamning við 3,3 milljónir opinberra starfsmanna eftir sjö ára kjaradeilu. Hagvöxtur hefur einnig heldur verið að aukast og atvinnuleysið minnkað ef marka má tölur sem birtar voru 1. desember.

Fari svo að Renzi vinni styrkir það stöðu hans á heimavelli og einnig gagnvart ESB og Brusselmönnum. Næstu stórpólitísku átök á Ítalíu yrðu þingkosningar árið 2018.

Sigri nei-menn veldur það ekki aðeins uppnámi á Ítalíu heldur einnig innan ESB. Þá vaknar strax spurning um hvort efnt verði næst til þjóðaratkvæðagreiðslu á Ítalíu um aðildina að ESB.

Paolo Gentiloni, utanríkisráðherra Ítalíu, segir ástæðulaust að fyllast ótta þótt nei-menn sigri. Hann sagði við Christiane Amanpour á CNN að Renzi og ríkisstjórn hans myndi styrkjast með sigri í þjóðaratkvæðagreiðslunni en tapaði ríkisstjórnin væri ekki ástæða til að óttast hörmungar fyrir Evrópu eða Ítalíu.

Heimild: EUobserver

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …