Home / Fréttir / Ítalía: Um 16 milljónir manna í sóttkví

Ítalía: Um 16 milljónir manna í sóttkví

 

Frá flugvellinum í Milanó 8. mars 2020.
Frá flugvellinum í Milanó 8. mars 2020.

Ítalska ríkisstjórnin hefur ákveðið að skilgreina borgirnar Mílanó, Feneyjar, Padua, Parma og Rimini auk héraða í norðurhluta Ítalíu sem „rauð svæði“ og þar með sett um 16 milljónir manna í sóttkví. Gildir ákvörðunin til 3. apríl.

Frá þessu var skýrt að morgni sunnudags 8. mars til að halda aftur af útbreiðslu kórónaveirunnar í landinu.

Alls hafa 233 látist vegna COVID-19 á Ítalíu fleiri en í nokkru landi utan Kína þaðan sem veiran barst upphaflega eftir að hennar varð fyrst vart í borginni Wuhan í desember 2019.

Þeir sem brjóta gegn nýju reglunum eiga yfir höfði sér sekt eða allt að þriggja mánaða fangelsi.

Ítalska stjórnin grípur nú til svipaðra aðgerða og gert var í Kína þar sem um 60 milljón manns í Hubei-héraði hafa verið í sóttkví síðan undir lok janúar. Wuhan er höfuðborg héraðsins.

Um 60 milljónir manna búa á Ítalíu, þar hafa 233 látist af veirunni og 5.883 sýkst á undanförnum tveimur vikum.

Milanó er fjármálamiðstöð Ítalíu og eru íbúar þar tæplega 1,4 milljónir. Ekki liggur fyrir hvort kauphöllin í Mílanó verði opin. Talið er að veikburða ferðaþjónusta í Feneyjum eigi erfitt með að þola lokun í mánuð.

Laugardaginn 7. mars hvöttu ítölsk stjórnvöld lækna á eftirlaunum að snúa að nýju til starfa. Er talið að með því megi fjölga starfandi læknum um allt að 20.000 landinu.

Almannavarnastjórinn í Mílanó segir að ástandið í borginni og Lombardi-héraði sé „spennuþrungið“. Óttast yfirvöld meðal annars að skortur á sjúkrarúmum auki brátt enn á vandann.

Hér samantekin lýsing á því sem felst í ákvörðun ríkisstjórnar Ítalíu:

Takmörkun á ferðafrelsi

 • Ferðafrelsi allt að 16 milljón manns inn og út af „rauða svæðinu“ verður mjög takmarkað og einnig innan svæðisins sjálfs. Sé um staðfesta mikilvæga starfstengda ferð að ræða kann leyfi að verða veitt og einnig í neyðartilvikum eða af heilsufarsástæðum.
 • Þeim sem glíma við erfiðleika við öndun og eru með hita er eindregið ráðlagt að halda sig heima og minnka öll samskipti við aðra, þar á meðal eigin lækni.
 • Sé staðfest að einstaklingur sé með kórónaveirunni er honum skylt að dveljast heima hjá sér.
 • Fyrirtæki, opinber og einkarekin, eru hvött til að gefa starfsmönnum sínum frí.

Mannamót

 • Hvers kyns íþróttamótum og viðburðum ber að fresta. Aðeins verður leyft að efna til æfinga vegna ólympíuleikanna eða annarra meiriháttar innlendra eða erlendra viðburða – og aðeins fyrir luktum dyrum.
 • Skíðasvæðum er lokað þar til annað er ákveðið.
 • Öllum menningarlegum, trúarlegum eða öðrum hátíðarviðburðum er frestað. Kvikmyndahús, krár, leikhús, söfn, dansskólar, leikjasalir, spilavíti, næturklúbbar og aðrir svipaðir staðir verða áfram lokaðir.
 • Barir og veitingastaðir mega bjóða þjónustu frá 08.00 til 18.00 svo framarlega sem tryggt er að einn metri að minnsta kosti sé milli viðskiptavina.
 • Skólar og háskólar verða áfram lokaðir og öllum prófum er frestað.
 • Verslanamiðstöðvum og stórmörkuðum verður lokað á frídögum og aðfarardögum þeirra.
 • Staðir til trúariðkana verða opnir með því skilyrði á þeir virði eins metra regluna. Á hinn bóginn er bannað að efna til kirkjulegra athafna eins og hjónavígslu og skírnar þar til annað verður ákveðið.

Um Ítalíu alla

 • Hvarvetna um Ítalíu verða kvikmyndahús, krár, leikhús, söfn, dansskólar, leikjasalir, spilavíti, næturklúbbar og aðrir svipaðir staðir áfram lokaðir.
 • Íþróttakeppnum er frestað en til sumra má stofna bakvið luktar dyr.
 • Áfram verður heimilt að stunda verslunarferðir eða fara á bari og veitingahús sé þess gætt að tryggja að einn metri sé á milli viðskiptavina.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …