Home / Fréttir / Ítalía: Stjórnarkreppa eftir fall forsætisráðherrans í þjóðaratkvæðagreiðslu

Ítalía: Stjórnarkreppa eftir fall forsætisráðherrans í þjóðaratkvæðagreiðslu

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur boðað afsögn sína eftir að yfirgnæfandi meirihluti Ítala hafnaði tillögum hans um stjórnarskrárbreytingar í þjóðaratkvæðagreiðslu sunnudaginn 4. desember.

„Ríkisstjórn mín biðst lausnar í dag,“ sagði Renzi skömmu eftir miðnætti í sjónvarpsávarpi frá Palazzo Chigi. „Ég tek fulla ábyrgð á ósigrinum.“

Hann hvatti keppinauta sína til að leggja fram skýrar tillögur um hvernig ætti að greiða úr pólitísku þrástöðunni á Ítalíu.

Renzi hefur verið forsætisráðherra í tvö og hálft ár. Hann afhendir Sergio Mattarrella Ítaíuforseta lausnarbeiðni sína mánudaginn 5. desember.

RAI ítalska ríkisútvarpið spáði að já-menn fengju 42 til 46% en nei-menn 54 til 58%. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var hlutfallslega mikil á ítalskan mælikvarða um 67%.

Meðal andstæðinga Renzis voru Forza Italia undir forystu Silvios Berlusconis, Norðurbandalagið og Fimm stjörnu hreyfingin (M5S) auk ýmissa innan Lýðræðisflokksins, flokks Renzis.

Andstaðan kom því bæði frá hægri og vinstri en M5S-flokkurinn er vinstrisinnuð hreyfing gegn ráðandi öflum. Leiðtogi flokksins er vinstrisinninn Beppe Grillo sem samt fagnaði sigri Donalds Trumps í Bandaríkjunum vegna þess að hann sýndi að fólk sætti sig ekki lengur við óbreytt ástand.

Eftir að sigurinn var í höfn að þessu sinni sagði Grillo á blogg-síðu sinni: „Tvær mikilvægar afleiðingar niðurstöðunnar eru: Í fyrsta lagi: Bless Renzi. Í öðru lagi: Ganga verður til almennra þingkosninga sem allra fyrst.“

Marine Le Pen. leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, fagnaði úrslitum á Ítalíu og sagði Ítali hafa hafnað ESB og Renzi.

Heimild: dw.de

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …