
Giuseppe Conte, verðandi forsætisráðherra Ítalíu, vann að því föstudaginn 25. maí að skipa mönnum sæti í ríkisstjórn sinni. Mest spenna er um val hans á efnahagsmálaráðherra. Afstaða hans ræður miklu um framgöngu Ítala í evru-samstarfinu.
Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, samþykkti miðvikudaginn 23. maí tillögu uppnámsflokkanna tveggja, Fimmstjörnu hreyfingarinnar (M5S) og Bandalagsins, um að Conte yrði forsætisráðherra í samsteypustjórn þeirra. Forsetinn verður að samþykkja ráðherralista Contes áður en hann er lagður fyrir þingið til staðfestingar.
Talið er að Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, verði innanríkisráðherra en Luigi Di Maio, leiðtogi M5S, verði atvinnu- og efnahagsþróunarráðherra.
Salvini vill að Paola Savona (81 árs) verði efnahagsmálaráðherra. Þetta hefur valdið deilum vegna andstöðu Savona við þróun mála innan ESB. Hann lýsti evrunni á sínum tíma sem „þýsku búri“. Salvini sagði fimmtudaginn 24. maí að hann sæi ekki hvernig „nokkur muni segja nei við Savona“. Hann áréttaði einnig að enginn hefði neitunarvald um ráðherravalið.
Talið er að Mattarella forseti sé andvígur Savona og án samþykkis forsetans verður enginn ráðherralisti lagður fyrir þingið. Ummæli Salvinis fóru illa í starfsmenn Mattarella sem minntu á að stjórnarskráin mælti svo fyrir að á þessu stigi væri gerð ráðherralistans í höndum forsætisráðherrans og forsetans.
„Málið snýst ekki um neitunarvald heldur hitt að óviðunandi er að gefin séu fyrirmæli um það sem forsætisráðherranum og forsetanum fer á milli,“ sagði í yfirlýsingu forsetaembættisins.
Hagkerfi Ítalíu er þriðja stærsta á evru-svæðinu. Þróun þess er undir smásjá ESB-manna og aðila að evru-samstarfinu því að öfugþróun í Ítalíu kann að valda uppnámi í samstarfinu.
Valdis Dombrovskis, sem fer með málefni evrunnar í framkvæmdastjórn ESB, áminnti Ítali um skyldur þeirra þegar hann kom á fund fjármálaráðherra ESB-ríkjanna föstudaginn 25. maí.
„Skilaboð okkar í framkvæmdastjórn ESB eru mjög skýr: það er mikilvægt að Ítalir fylgi áfram ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt,“ sagði Dombrovskis við fréttamenn.
Áður hafði hann varað Ítali við að taka upp ábyrgðarlaus útgjaldastefnu í ríkisfjármálum.