
Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu og formaður Bandalagsins (Lega), hefur snúist hart til varnar vegna ásakana um að flokkur hans hafi reynt að fá leynilegar tekjur af olíusölu Rússa. Birtar hafa verið upptökur af samtölum samstarfsmanna Salvinis við Rússa um þetta mál í Moskvu í fyrra.
Frétta-vefsíðan Buzzfeed birti á dögunum útprentun á samtali sem hljóðritað var á hóteli í Moskvu. Þar hittust einn af helstu aðstoðarmönnum Salvinis innan Bandalagsins og þrír Rússar til að ræða leynilegan, fjárhagslegan stuðning Rússa við flokkinn.
Fyrstu fregnir af þessum fundi birtust í ítölskum fjölmiðlum í febrúar 2019. Þær urðu þó ekki á hvers manns vörum á Ítalíu fyrr en núna eftir að fréttin birtist á vefsíðunni Buzzfeed.
Á fundinum í Moskvu var rætt hvernig með leynd mætti beina 65 milljónum dollara af olíusölutekjum Rússa með aðstoð milliliða til Bandalagsins.
Buzzfeed segir að Gianluca Savoini frá Bandalaginu hafi verið einn þriggja Ítala á fundinum með þremur Rússum. Á vefsíðunni segir að fundurinn hafi verið í október 2018.

Savoini (56 ára) er fyrrverandi blaðamaður. Hann er kvæntur rússneskri konu og er forseti vináttufélags Lombardí-héraðs og Rússlands. Hann er talinn helsti tengiliður Bandalagsins við Rússa.
„Blekking, svindl, óþverri,“ sagði Savoini við ítalska blaðið La Repubblicca um fréttina á Buzzfeed.
Fréttin birtist á vefsíðunni miðvikudaginn 10. júlí. Salvini sagði hana ranga: „Aldrei fengið rúblu, evru, dollar eða lítra af vodka sem stuðning frá Rússum.“
Á hitt er bent að hann hafi aldrei leynt aðdáun sinni á Vladimir Pútin Rússlandsforseta sem var á Ítalíu í fyrri viku. Þá nefndi Pútin sérstaklega samstarfssamning milli eigin flokks, Sameinaðs Rússlands, og Bandalagsins, flokks Salvinis.
Salvini segir stuðning sinn við Pútin reistan á baráttu sinni gegn þvingunum ESB-ríkja á Rússa vegna innlimunar þeirra á Krímskaga árið 2016. Fyrir þessu berjist hann af sannfæringu.
Í ítölskum fjölmiðlum segir að ítalskir saksóknarar séu teknir til við að rannsaka Savoini. Rannsóknin hafi byrjað þegar ítalskir fjölmiðlar birtu á sínum tíma fréttir af fundum hans í Moskvu.
Bandalagið er stórskuldugt ítalska ríkinu vegna svika flokksins gagnvart því á árunum 2008 til 2010, það er áður en Salvini varð formaður árið 2013. Í september 2018 var samið um endurgreiðslu Bandalagsins á 49 milljónum evra sem það hafði svikið út úr opinberum sjóði á Ítalíu sem styrkir kosningabaráttu flokka þar.
Flokkurinn samdi við saksóknara í Genúa um að endurgreiða fjármunina á löngum tíma, mörgum áratugum. Þetta mæltist mjög illa fyrir hjá stjórnarandstöðuflokkunum og hafa þeir sótt hart að Salvini vegna þessa samnings.
Í þingsalnum í Róm hafa stjórnarandstöðuþingmenn brugðið upp spjöldum með tölunum 65 milljónir og 49 milljónir. Með þessu tengja þeir Rússagullið og svikafjárhæðina. Matteo Renzi, fyrrv. forsætisráðherra úr mið-vinstri Lýðræðisflokknum, lýsir samtölum Savoinis við Rússa sem „landráðum“.
Stjórnmálaskýrendur segja að hér sé um mál að ræða sem líkist hneykslinu sem varð Heinz-Christian Strache, leiðtoga austurríska Frelsisflokksins (FPÖ), að falli í maí.
Strache sagði af sér 18. maí þegar birt var upptaka af falinni myndavél sem sýndi hann í glæsihúsi á Ibiz-eyju bjóða opinbera verktakasaminga fengi hann kosningaaðstoð frá rússneskum stuðningsmanni sem reyndist leikinn til að blekkja Strache,
Buzzfeed segir að ekki sé um neina sviðsetningu að ræða í upptökunni sem býr að baki frétt vefsíðunnar. Ástæðulaust sé að draga gildi hennar í efa.
„Ég hef aldrei hitt hann persónulega,“ sagði Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, um Savoini. Myndir úr hátíðarkvöldverði sem Conte hélt fyrir Pútin á dögunum í Róm sýna þó að Savoini var þar meðal gesta. Hann stendur brosandi að baki Conte og Pútins þegar þeir lyfta glösum og skála.
Salvini sagði af þessu tilefni á blaðamannafundi: „Innanríkisráðuneytið bauð honum ekki.“
Flokksformanninum og innanríkisráðherranum var nóg boðið og sagði: „Strákar, leyfið mér að vinna störf mín af alvöru,. Gangi ykkur vel í leitinni að rúblunum. Og hvað með mig, ég ætla að sinna mínum störfum. Mér finnst þessi rannsókn fáránleg.“
Málið setur þó enn svip á fyrirsagnirnar. Laugardaginn 13. júlí stóð í La Repubblicca: Salvini gat ekki annað en vitað
Gianluca Meranda alþjóðalögfræðingur sendi blaðinu bréf og gaf sig fram sem einn Ítalanna á hljóðritaða, október-fundinum í Moskvu.
Hann staðfesti að mál hefðu verið rædd en viðræður um olíusamning hefðu ekki skilað neinu að lokum. Hann neitaði spurningum um að þetta hefði snúist um fjárhagslegan stuðning við flokkinn. Hann mundi hins vegar með ánægju ræða við saksóknarana.
Heimild: The Local.it