Home / Fréttir / Ítalía: Rússnesk neyðarhjálp í auglýsingaskyni

Ítalía: Rússnesk neyðarhjálp í auglýsingaskyni

 

Rússneska neyðarhjálpin berst til Ítala.
Rússneska neyðarhjálpin berst til Ítala.

Rússar sendu í mars menn og neyðarbúnað til Ítalíu. Vildu þeir létta undir í baráttunni við kórónaveiruna þegar hún sótti hart að Ítölum. Ekki leið á löngu þar til ásakanir birtust um að mest af búnaðinum væri ónothæft og í hópi þeirra sem voru sendir með flugi frá Rússlandi væru njósnarar. Frá þessu var skýrt í Moscow Times.

Í Kreml brugðust menn illa við þessum lýsingum og sögðu þær „falsfréttir úr kalda stríðinu“.

Nú hefur ítalska blaðið La Repubblica komist á snoðir um vandræðalega auglýsingamennsku Rússa. Í frétt blaðsins segir að Rússar búsettir á Ítalíu hafi notað samfélagsmiðilinn WhatsApp til að bjóða Ítölum allt að 200 evrum fyrir að taka þátt í þakkar-myndskeiði. Var ætlunin að láta líta svo út sem Rússar búsettir á Ítalíu og stunda þar nám stæðu að gerð þess.

„Við þurfum 15 Ítali til að segja eitthvað fallegt um neyðarhjálp Rússa,“ sagði í orðsendingunni að sögn blaðsins.

Ónafngreindur Ítali segir við blaðið að þeir sem geri og sendi stutt myndskeið eða texta með þökkum til Rússa geti fengið frá 20 að 200 evrum fyrir viðvikið.

Moscow Times segir að rússneska sendiráðið í Róm viti ekki til þess að boðið hafi verið fram fé vegna þessa en þangað berist hundruð ósvikinna þakkarkveðja frá Ítölum fyrir neyðaraðstoðina. Segir sendiráðið að fréttin í La Repubblica sé „ögrun falsara“.

Þessi frétt ítalska blaðsins birtist fáeinum dögum eftir að sagt var frá því í BBC Russia að Ítalarnir sem vakið hafa mikla athygli í rússneskum fjölmiðlum fyrir að leika rússneska þjóðsönginn eða veifa með rússneska fánanum eigi annaðhvort fjölskyldu- eða fjárhagstengsl við Rússland.

 

 

 

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …