Home / Fréttir / Ítalía: Kveikti í skólabíl með 51 nemanda um borð

Ítalía: Kveikti í skólabíl með 51 nemanda um borð

Flak skólabílsins.
Flak skólabílsins.

Karlmaður rændi skólabíl með 51 nemanda úr efri bekkjum grunnskóla í bænum San Donato Milanese á Norður-Ítalíu miðvikudaginn 20. mars áður en hann kveikti í bílnum til að mótmæla afstöðu ítalskra yfirvalda til farandfólks og flóttamanna. Allir nemendurnir komust heilu og höldnu út úr bílnum áður en eldurinn varð honum að bráð.

Sagt er að maðurinn hafi gefið kennara fyrirmæli um að binda hendur nemendanna saman með plastböndum en kennarinn hafi aðeins fest böndin lauslega á fjögur eða fimm þeirra svo þau áttu auðvelt með losa sig þegar í harðbakka sló.

Lögregla stöðvaði bílræningjann eftir að hann hafði ekið á þrjá lögreglubíla. Segir lögreglan að hann hafi borið eld að skólabílnum á meðan nemendurnir voru á leið úr honum en lögregla rauf gat á bílinn að aftan. Alls ríkti hættuástand í um 40 mínútur.

Talsmaður lögreglunnar segir að sá sem stóð að ráninu hafi verið óvopnaður 47 ára gamall karlmaður frá Senegal með ítalskan ríkisborgararétt. Við handtöku hafi hann sagt: „Hættið að drepa fólk á hafi úti, ég mun fremja fjöldamorð.“

Einn nemendanna sagði við fréttamenn sem komu að bílflakinu að bílstjórinn hefði hótað að hella yfir þau bensíni og kveikja í þeim. Einu þeirra tókst að ná símasambandi við lögreglu sem brást hratt við og bjargaði börnunum. Gat nemandinn hringt í síma sem datt á gólf bílsins þegar ræninginn tók alla síma af hópnum.

Kennarinn sagði að þetta hefði ekki verið fyrsta ökuferð bílstjórans með nemendur. „Við þekktum hann,“ sagði kennarinn við Ansa-fréttastofuna. Ætlun bílstjórans hafi verið að aka með hópinn inn á flugbraut á Linate-flugvelli við Mílanó.

Einn drengjanna í bílnum sagði að bílstjórinn vildi „hefna dætra sinna“. Þær munu hafa drukknað á hafi úti þegar þær reyndu að komast til Ítalíu. „Hann vildi hefna dauða þriggja dætra sinna með því að drepa okkur,“ sagði drengurinn.

Stúlka úr hópi nemenda sem ræddi við Ansa sagði að maðurinn hefði í sífellu endurtekið: „Fólk deyr í Afríku og það er þeim Di Maio og Salvini að kenna.“ Luigi di Maio er leiðtogi Fimmstjörnu-hreyfingarinnar á Ítalíu en Matteo Salvini er leiðtogi Bandalagsins. Flokkarnir standa að stjórn Ítalíu.

Matteo Salvini, innanríkisráðherra og vara-forsætisráðherra Ítalíu, áréttaði þriðjudaginn 19. mars að að ítalskar hafnir væru lokaðar fyrir björgunarskipum sem sinna fólki í sjávarháska á ferð yfir Miðjarðarhaf.

Eftir atvikið við Mílanó sagði Salvini á Twitter að lögreglan rannsakaði heimili mannsins og hvernig á því stæði að maður með hans sögu af ölvunarakstri og kynferðisofbeldi hefði fengið leyfi til að aka skólabíl.

Ítalska varnarmálaráðuneytið þakkaði lögreglunni fyrir að bjarga skólabörnunum í tæka tíð.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …