
Giorgia Meloni, leiðtogi Fratelli d‘Italia-flokksins (Ítalíubræðra), 45 ára, varð fyrst kvenna forsætisráðherra Ítalíu síðdegis föstudaginn 21. október þegar Sergio Mattarella Ítalíuforseti veitt henni til þess umboð.
Meloni kynnti strax ráðherraefni sín – 24, þar af sex konur – sem forsetinn setur í embætti laugardaginn 22. október í Quirinal höllinni í Róm.
Giancarlo Giorgetti, áhrifamaður í þeim armi Lega-flokksins, sem er hallur undir Evrópusambandið verður efnahagsmálaráðherra. Hann var efnahagsþróunarráðherra í ríkisstjórninni sem Mario Draghi leiddi og fór frá í sumar. Stóð Girogetti ávallt með Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra evrunnar í Frankfurt, embættimanns sem fenginn var til að rétta hlut Ítala í efnahagsmálum en naut að lokum ekki trausts stjórnmálamanna til þess. Var gengið til kosninga í september og þar vann flokkur Meloni afgerandi sigur. Leiðir hún nú „hreinustu hægri stjórn“ í sögu Ítalíu frá stríðslokum.
Matteo Salvini, leiðtogi Lega-flokksins, verður vara-forsætisráðherra eins og hann hefur verið frá kosningum árið 2018. Þá gekk flokkur hans til stjórnarsamstarfs með popúlistum í Fimm-stjörnu-hreyfingunni.
Antonio Tajani, sem var forseti ESB-þingsins frá 2017 til 2019 verður utanríkisráðherra Ítalíu. Segir að þetta kunni að koma á óvart í ríkisstjórn flokka sem hafa haft horn í síðu ESB. Á það er bent að Tajana standi mjög nærri Silvio Berlusconi, fyrrv. forsætisráðherra og leiðtoga Forza Italia, minnsta flokksins í þriggja flokka stjórn Meloni en Berlusconi fékk 8% atkvæða í kosningunum. Sagt er að tengslin sem Tajani hafi myndað undanfarin 20 ár sem ESB-þingmaður og samgöngustjóri í framkvæmdastjórn ESB séu lífsnauðsynleg til að viðhalda trausti og tengslum við Brusselmenn. Tajani var staðgengill heilsutæps Berlusconis (86 ára) í kosningabaráttunni. Tajana er einnig vara-forsætisráðherra eins og Salvini.
Teknókratinn Matteo Piantedosi (59 ára) verður innanríkisráðherra í þessari þjóðernissinnuðu ríkisstjórn sem sótti fylgi sitt til kjósenda til að auka öryggi Ítala og hafa hemil á straumi innflytjenda til landsins. Piantedosi hefur lengi gegnt háum embættum í innanríkisráðuneytinu eða á vegum þess. Hann var meðal annars hægri hönd Matteos Salvinis þegar hann var innanríkisráðherra.
Guido Crosetto, einn af stofnendum Ítalíubræðra, er varnarmálaráðherra í stjórn Meloni.
Níu ráðherrar koma úr flokki hennar, fimm frá Lega, fimm frá Forza Italia og fimm teknókratar.
Forseti öldungadeildarinnar er Ignazio La Russa, sem stofnaði Ítalíubræður með Giorgiu Meloni. Hann er 75 ára frá Sikiley og hefur skipað sér lengst til hægri allt sitt líf, fetað í fótspor föður síns, sem á sínum tíma var héraðsforingi í Fasistaflokki Mússolinis. La Russa var varnarmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn Berlusconis og er frægur fyrir safn sitt af minjagripum sem tengjast stjórnartíð fasista og flokki þeirra.
Forseti neðri deildar þingsins er ekki síður umdeildur vegna skoðana sinna. Hann er Lorenzo Fontana, náinn bandamaður Salvinis, erki-íhaldsmaður í afstöðu sinni til þungunarrofs og hjúskapar samkynhneigðra. Hann fer ekki leynt með kaþólska trú sína og skreytir Facebook-síðu sína með dýrlingamyndum. Það vakti athygli árið 2014 þegar hann fordæmdi refsiaðgerðir ESB gegn Rússum vegna innlimunarinnar á Krímskaga. Hann hefur lýst Rússlandi undir stjórn Vladimirs Pútins sem „fyrirmyndar“ samfélagi.
Sagði Berlusconi að þegja.
Fréttir herma að Giorgia Meloni hafi sagt Silvio Berlusconi að „halda sér saman“ á meðan hún myndaði stjórn sína.
Fréttaskýrendur minna á að Berlusconi sé þekktur fyrir glappaskot sín og uppátæki.
Það mæltist illa fyrir og truflaði stjórnarmyndunina fyrr í vikunni þegar birt var hljóðupptaka þar sem Berlusconi gortaði sig af því að hafa fengið 20 vodkaflöskur og „mjög sætt“ bréf frá Valdimir Pútin Rússlandsforseta í september þegar hann hélt upp á 86 ára afmæli sitt.
Hann sakaði Úkraínumenn um að eiga upptök að stríðinu í landi sínu og fullyrti ranglega að Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti hefði haft friðarasamning að engu og ýtt undir árásir á rússneska hermenn í aðskilnaðarhéraðinu Donbas áður en stríðið hófst að fyrirmælum Pútins 24. febrúar 2022.
La Stampa eitt af helstu dagblöðum Ítalíu birti forsíðufrétt undir fyrirsögninni: Meloni segir Berlusconi að þegja. Segir blaðið að fyrir Meloni hafi vakað að „slá á allar sviðsljóss freistingar Berlusconis“.
Berlusconi hlýddi Meloni. Eftir fundi með Ítalíuforseta að morgni föstudags 21. október stóð hann þögull ásamt Matteo Salvani við hlið Meloni. Hún ávarpaði fréttamenn stuttlega og sagði flokkana tilbúna að mynda stjórn „eins fljótt og verða mætti“. Það varð síðan síðdegis þennan sama föstudag.
Heimild: Le Figaro – The Telegraph