Home / Fréttir / Ítalía: Giuseppe Conte fær umboð til að mynda vinstri stjórn

Ítalía: Giuseppe Conte fær umboð til að mynda vinstri stjórn

Nicola Zingaretti segir frá samkomulagi Lýðræðisflokksins og Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar.
Nicola Zingaretti segir frá samkomulagi Lýðræðisflokksins og Fimm-stjörnu-hreyfingarinnar.

Nicola Zingaretti, leiðtogi Lýðræðisflokksins (PD) á Ítalíu, tilkynnti Sergio Mattarella Ítalíuforseta miðvikudaginn 28. ágúst að hann væri til þess búinn að mynda samsteypustjórn með Fimm-stjörnu-hreyfingunni, M5S. Luigi Di Maio, leiðtogi M5S (vinstriflokkur), staðfesti af sinni hálfu við forsetann að samið hefði verið um myndun ríkisstjórnar milli flokkanna og yrði Giuseppe Conte, hliðhollur M5S, áfram forsætisráðherra.

„Fyrir liggur samkomulag um stjórn við Lýðræðisflokkinn sem gerir ráð fyrir að Conte fái umboð til að mynda stjórn til langs tíma,“ sagði Luigi Di Maio eftir fund í ítölsku forsetahöllinni, Quirinal, með Mattarrella forseta. „Okkur er annt um Ítalíu og við teljum að það sé þess virði að gera þessa tilraun,“ sagði Nicola Zingaretti eftir að hann hitti forsetann.

Zingaretti sagði að PD, mið-vinstri flokkur, gæti ekki skorast undan ábyrgð á erfiðum tímum sem þessum. Árum saman hafa fulltrúar M5S og PD barist harkalega en slíðra nú sverðin að loknum nokkurra daga viðræðum. Báðum flokkum er mikið í mun að koma í veg fyrir þingrof og kosningar eins og Matteo Salvini, leiðtogi hægriflokksins, Bandalagsins, krefst. Bandalagið stendur lang best allra flokka í skoðanakönnunum.

Salvini beitti mikilli hörku ef ekki ósvífni 8. ágúst sl. þegar hann batt enda á líf samsteypustjórnarinnar sem hann myndaði með M5S í júní 2018 og krafðist að kosið yrði án tafar til nýs þings. Giuseppe Conte sagði af sér sem forsætisráðherra 20. ágúst. Nú beitir hann sér fyrir samkomulagi M5S og PD um skiptingu lykil-ráðherraembætta og um stjórnarsáttmála.

Luigi Di Maio vill að stjórnarsáttmáli sé á borðinu áður en samið verði um skiptingu ráðuneyta. Takist ekki samkomulag skipar forsetinn stjórn til bráðabirgða og efnt verður til kosninga í haust. Þótt samkomulag liggi fyrir milli flokkanna er enn langt í land.

M5S tilkynnti þriðjudaginn 27. ágúst að stjórnarsáttmálinn yrði lagður í dóm félaga í flokknum sem myndu greiða um hann atkvæði rafrænt. Innan M5S er mikil andstaða hjá mörgum við PD og við samstarfi við flokkinn.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …