
Forystumenn tveggja uppnámsflokka á Ítalíu, Fimmstjörnu-hreyfingarinnar (M5S) og Bandalagsins ætluðu að kvöldi fimmtudags 17. maí að leggja lokahönd á sáttmála „stjórnar í þágu breytinga“. Þeir ræða jafnframt hver skuli verða forsætisráðherra í stjórninni. Ekki hefur fengist staðfest hvort leiðtogarnir ætli að leggja stjórnarsáttmálann og ráðherralista fyrir Sergio Mattarella, forseta Ítalíu, mánudaginn 21. júní.
Forsetinn verður að leggja blessun sína yfir þann sem tilnefndur er forsætisráðherra áður en tillaga um hann er lögð fyrir ítalska þingið til samþykktar. Fjöldi ráðherra frá hvorum flokki er talinn ráðast af þingstyrk flokkanna, M5S, stærsti flokkurinn á þingi, hlaut 33% atkvæða en Bandalagið 17%.
Rocco Casalino, málsvari M5S, skýrði frá samkomulagi flokkanna um drög að stjórnarsáttmála að kvöldi miðvikudags 16. maí. Hann sagði að í fundarlok hefðu menn fagnað samkomulaginu með lófataki og fallist í faðma.
Stjórnarsáttmálinn er 40 bls. að lengd. Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, og Luigi Di Maio, leiðtogi M5S, hafa báðir lofað að kjósendur þeirra fái að segja álit sitt á sáttmálanum. Di Maio segir að um 500.000 manns sem eru tengdir flokki hans á netinu fái að láta í ljós vilja sinn. Bandalagið ætlar hins vegar að setja upp einskonar kjörstaði víðsvegar um landið.
Í sáttmálanum er gert ráð fyrir „samhliða nefnd“ sem hafi auga með störfum ríkisstjórnarinnar. Komi til ágreinings milli flokkanna er ætlunin að leyst verði úr honum í þessari nefnd.
Fyrr í vikunni var upplýsingum um efni sáttmálans lekið til fjölmiðla. Sérstaka athygli vöktu ákvæði draganna um að Ítalir segðu skilið við evruna, krefðust fjárhagslegra ívilnana frá ESB og vildu að fallið yrði frá viðskiptabanni gagnvart Rússum.
Nú er ákvæðið varðandi aðild að evru-samstarfinu orðað á þann veg að staða Ítalíu innan þess verði ákveðin í samráði við samaðilanna að samstarfinu og ekki er lengur gert ráð fyrir að ESB afskrifi skuldir ítalska ríkisins.
Í sáttmálanum er gert ráð fyrir að hafið sé samstarf við Rússa, lagður sé á flatur skattur, nefnd eru tvö þrep 15 og 20%, skattsvikarar fái verðuga refsingu, hafnað sé Dyflinnar-reglunni um að afgreiða skuli umsókn hælisleitanda í fyrsta komulandi hans innan ESB, komið sé á skuldbindandi reglum um flutning flóttamanna milli ESB-ríkja, sáttmálar ESB séu endurskoðaðir, tryggð séu 780 evru (96.000 ísl. kr.) grunnlaun á mánuði.