Home / Fréttir / Ítalía: Flokkar „gegn kerfinu“ sigra í kosningunum

Ítalía: Flokkar „gegn kerfinu“ sigra í kosningunum

 Matteo Salvini
Matteo Salvini

 

Leiðtogar tveggja flokka á Ítalíu sem börðust gegn ráðandi öflum fyrir kosningarnar sunnudaginn 4. mars gera hvor um sig kröfu til að leiða næstu ríkisstjórn landsins. Enginn einn flokkur hefur ótvíræðan stuðning til að mynda ríkisstjórn.

Flokksleiðtogarnir eru annars vegar Luigi Di Maio (31 árs) frá Fimm-stjörnu-hreyfingunni og hins vegar Matteo Salvini (44 ára), leiðtogi Bandalagsins (Lega).

Fimm-stjörnu-hreyfingin er stærsti einstaki flokkurinn á þingi eða þriðjung atkvæða. Flokkurinn hefur horn í síðu ESB. Salvini segir að Bandalagið hafi stuðning annarra flokka til að leiða mið-hægri fylkingu á þingi. Bandalagið berst gegn straumi flótta- og farandfólks til Ítalíu og vill reka það úr landi.

Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur sagt af sér sem formaður stjórnarflokksins, mið-vinstri Lýðræðisflokksins, sem fékk innan við 20% atkvæða í kosningunum. Hann sagði flokk sinn ekki geta átt samstarf við flokka „gegn kerfinu“ og yrði því í stjórnarandstöðu.

Bandalagið og Forza Ítalía, flokkur Silvios Berlusconis, fyrrv. forsætisráðherra, hafa stofnað til samstarfs og verða samtals með flesta fulltrúa í neðri deild þingsins. Bandalagið er stærri flokkurinn í þessu tveggja flokka samstarfi.

Matteo Salvini sagði á blaðamannfundi mánudaginn 5. mars að hann mundi ræða við aðra flokka til að ná stuðningi meirihluta þingmanna.

Luigi Di Maio sagði að flokkur sinn væri einnig fús til samstarfs við aðra flokka þótt stefna flokksins hefði verið önnur í kosningabaráttunni.

Salvini sagðist ekki ætla að mynda stjórn með Fimm-stjörnu-hreyfingunni.

Takist hægrimönnum að sameinast á ítalska þinginu er talið að þeir njóti stuðnings 248 til 268 þingmanna en 316 þingmenn þarf til að mynda meirihluta. Fimm-stjörnu-hreyfingin er talin fá á bilinu 216 til 236 þingmenn. Óvissan um fjölda þingmanna ræðst af því að úthlutun þingsæta var ekki lokið að kvöldi mánudags 5. mars. Talið er að Lýðræðisflokkurinn fái á bilinu 107 til 127 sæti.

Matteo Salvani er ekki aðeins gagnrýnin á útlendingastefnu ítalskra stjórnvalda og ESB heldur leggst hann hart gegn evrunni. Salvani hefur kallað hana „glæp gegn mannkyni“.

Salvani hefur lagt áhersu á að eiga samstarf við evrópska flokka með svipuð áherslumál. Hann hefur setið á ESB-þinginu síðan 2004. Salvani stofnaði fyrst til sambands við Marine Le Pen í Frakklandi og Hollendinginn Geert Wilders. Hann er einnig yfirlýstur stuðningsmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og hefur sett á Twitter mynd af sér með Trump á kosningafundi Trumps.

 

 

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …