Home / Fréttir / Ítalía: Ferðabann og sóttkví vegna kórónaveirunnar

Ítalía: Ferðabann og sóttkví vegna kórónaveirunnar

Ítalska lögreglan framfylgir ferðabanni.
Ítalska lögreglan framfylgir ferðabanni.

Ítalska ríkisstjórnin hefur gripið til róttækra aðgerða til að hindra útbreiðslu kórónaveirunnar í norðurhluta landsins. Sunnudaginn 23. febrúar gekk í gildi bann við að ferðast á milli 12 bæja í héruðunum Lombardi og Veneto.

Giuseppe Conte forsætisráðherra sagði að „óvenjulegar aðgerðir“ væru nauðsynlegar til að hindra útbreiðslu veirunnar. Þegar þessi orð ráðherrans féllu höfðu að minnsta kosti 132 verið greindir með hana á Ítalíu. Um 50.000 manns sæta ferðabanninu.

Conte sagði að engum yrði leyft að fara inn á eða yfirgefa bannsvæðið án sérstaks leyfis. Hann boðaði að lögregla og hugsanlega hermenn mundu sjá til þess að banninu yrði fylgt.

Stjórnvöld gefa til kynna að með þessu takist þeim að hefta útbreiðslu veirunnar á Ítalíu. Fréttir hafa þó borist af henni víðar á Ítalíu og þar á meðal í höfuðborginni Róm.

Angelo Borrelli, yfirmaður almannavarna á Ítalíu, sagði á blaðamannafundi sunnudaginn 23. febrúar að þúsundir sjúkrarúma væru til reiðu í herbúðum og hótelum til að hlú að sjúkum eða þeim sem settir yrðu í sóttkví. Af þeim 132 sem Borrelli sagði hafa smitast hafa tveir dáið.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …