Home / Fréttir / Ítalía: Boðar lokun hafna fyrir björgunarskipum farand- og flóttafólks

Ítalía: Boðar lokun hafna fyrir björgunarskipum farand- og flóttafólks

Matteo Salvini
Matteo Salvini

Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins, var ekki fyrr orðinn innanríkisráðherra Ítalíu en hann hélt til Sikileyjar og tilkynnti ólögmætu farandfólki þar að nú skyldi það „pakka niður“ og búast til rólegrar brottfarar.

Salvini fór í flóttamannabúðir í Pozzallo þar sem 158 manns höfðu nýlega stigið á land, flestir Alsírbúar, og tilkynnti að hann mundi loka ítölskum höfnum fyrir skipum hjálparstofnana sem björguðu fólki á hafi úti. Ráðherrann lítur á þessar stofnanir sem „samverkamenn smyglara“.

Laugardaginn 2. júní boðaði hann „sex milljarða evra“ niðurskurð á útgjöldum sem varið er til að taka á móti farandfólki. Fjölmiðlar benda á að þarna hafi honum orðið á í messunni því að í ítölskum fjárlögum sé gert ráð fyrir 4,8 milljarða evru útgjöldum til málaflokksins og nái fjárhæðin einnig til aðstöðu og umhirðu flóttamannabúða og kostnaðar við brottflutning fólks.

Verulega hefur dregið úr ferðum fólks yfir Miðjarðahaf frá Norður-Afríku til Ítalíu í ár miðað við fyrri ár. Frá ársbyrjun þar til nú hafa 7.814 komið, 78% færri en í fyrra (36.781). Samdráttinn má rekja til betri gæslu á strönd Norður-Afríku. Matteo Salvini beinir spjótum sínum einkum að Túnis og segir að yfirvöld þar standi sig ekki sem skyldi.

Ráðherrann segist ætla að reka úr landi alls 500.000 ólöglega innflytjendur sem dveljist nú á Ítalíu. „Sikiley verður ekki gerð að flóttamannabúðum Evrópu,“ sagði hann þegar hann kynnti áform um að á næstunni yrðu opnaðar sérstakar stöðvar til brottflutnings á fólki.

Vegna þessara áforma hafa stuðningsmenn ráðherrans bent á að ekki sé hlaupið að því að vísa fólki úr landi. Til þess þurfi meðal annars samning við móttökulandið. Hann hafi verið gerður við Túnis en ekki við Líbíu.

 

Heimild Le Figaro

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …