Home / Fréttir / Ítalía: Bandalagi hægri flokka spáð kosningasigri 25. september

Ítalía: Bandalagi hægri flokka spáð kosningasigri 25. september

Leiðtoga hægri flokkanna: Matteo Salvini (la Lega), Silvio Berlusconi (Forza Italia), Giorgia Meloni (Fratelli d’Italia).

Ítalir ganga að kjörborðinu sunnudaginn 25. september til að kjósa 400 þingmenn í fulltrúadeild þings síns og 200 í öldungadeildina. Um nokkurra vikna skeið hafa úrslitin virst ráðin, að flokkarnir lengst til hægri vinni stórsigur. Vinstri flokkunum mistókst að stilla saman strengi sína. Spurningin er talin snúast um hve stór sigur hægri flokkanna verður.

Roberto d’Alimonte, stjórnmálafræðingur við háskólann í Luiss, segir við franska blaðið Le Figaro að hægri flokkarnir fái líklega meirihluta í báðum þingdeildum. Eftir 10 ára sundrung á þingi megi nú vænta þess að til verði meirihlutastjórn sem geti tryggt stöðugleika.

Giorgia Meloni, vinsælust hægrimanna og líklega fyrsta konan til að verða forsætisráðherra Ítalíu, lofaði sigurviss á lokakosningafundi sínum á Piazza del Popolo í Róm, að hvort sem vinstrisinnum líkaði eða ekki yrði ný stjórn hægri flokkanna við völd í fimm ár. Með því yrðu mikil þáttaskil í ítölskum stjórnmálum.

Þing var rofið og boðað til kosninga 21. júilí sl. þegar Mario Draghi baðst lausnar fyrir sig og stjórn sína. Lausnarbeiðni á þessum árstíma kom á óvart. Það hefur aldrei gerst áður síðan lýðveldi var stofnað á Ítalíu árið 1946 að kosningabarátta sé háð að sumarlagi og kosið þegar dregur að hausti. Kosningabaráttan hófst ekki í raun fyrr en byrjun september og hefur því aðeins staðið í þrjár vikur.

Hægri flokkarnir hafa staðið saman í öllum kosningum til þings síðan 1994. Þeir eiga hver sinn leiðtoga, flokksmerki og stefnuskrá. Að þessu sinni komu þeir fljótt skipulagi á baráttuna. Þeir skiptu frambjóðendum á milli sín og boðuðu strax meginatriði sameiginlegrar stefnu. Þrátt fyrir hana er öllum ljóst að flokkana greinir á um fjölmörg mál eins og refsiaðgerðir gegn Rússum, stuðning við heimili vegna hækkandi orkureikninga, aðhald í ríkisfjármálum, sjálfsstjórn héraða í Norður-Ítalíu, minnkandi kaupmátt o.sv.frv. Flokksleiðtogarnir hafa ekki heldur gefið hlut sinn hver gagnvart öðrum í kosningabaráttunni ­– þeir komu aðeins einu fram allir saman á fundi, lokafundinum í Róm. Tortryggni milli leiðtoganna kann að vera fyrirboði vandræða við skiptingu ráðherrastóla og ráðuneyta.

Giorgia Meloni birti þessa mynd sem hún tók af sér á kosningafundinum á Piazza del Popolo í Róm.

Ekkert af þessu birtist mannfjöldanum sem sótti loka-kosningafundinn í Róm. Þar ríkti baráttu- og sigurandi eins og jafnan á fundunum þar sem Giorgia Meloni, leiðtogi Fratelli d’Italia (Ítalíubræðra), lætur að sér kveða. Hún nær mun betur til almennings en Enrico Letta, leiðtogi vinstri manna.

Það fer ekki á milli mála að Giorgia Meloni er leiðogi hægri manna eins og Silvio Berlusconi var á sínum tíma

Á lokadögum kosningabaráttunnar blés Giuseppe Conte, leiðtogi 5-stjörnu-hreyfingarinnar lífi í hana. Flestir töldu að Conte hefði lagt stjórnmál til hliðar þegar hann baðst lausnar sem forsætisráðherra og vék fyrir Mario Draghi. Það kom því á óvart þegar hann sótti af þunga fram í suðurhluta Ítalíu og sakaði Girogiu Meloni um að vegna að fátæku fólki þar.

Conte gekk fram af svo miklum eldmóði sem „málsvari fátækra“ að hann espaði fólkið gegn Meloni sem varð að njóta sérstakrar lögregluverndar þegar hún sótti kosningafundi í Palermó og öðrum borgum í Suður-Ítalíu.

Á lokadögum kosningabaráttunnar sýndi skoðanakannanir að fylgi 5-stjörnu-hreyfingarinnar jókst í suðri á kostnað Lýðræðisflokksins.

Nokkrar kannanir sýna að allt að 40% kjósenda ganga óákveðnir á kjörstað. Óvissan er því nokkur þótt spáin um sigur hægri flokkanna breytist ekki.

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …