
Í fyrsta sinn í sögunni var eldflaugum frá Írönum skotið á Ísrael aðfaranótt fimmtudagsins 10. maí. Ísraelar svöruðu með loftárásum gegn öllum stöðvum Írana í Sýrlandi.
Spenna hefur magnast undanfarið við norður landamæri Ísraels og nú leitt til vopnaðra átaka. Eldflaugunum var skotið á Ísrael að kvöldi miðvikudags 9. maí. Eldflaugarnar komu frá skotpöllum undir stjórn Al-Qods, þess hluta írönsku byltingarvarðanna sem þjálfaður er til aðgerða utan Írans. Al-Qods liðsmenn hafa búðir í Kiswa í Sýrlandi, í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus. Með flaugunum var ætlunin að granda framvörnum ísraelska hersins á Gólan-hæðum sem lotið hafa yfirráðum Ísraela síðan 1981.
Ekkert manntjón varð í Ísrael. Her Ísraela varðist með loftvarnakerfinu sem kallað er járnhvelfingin og tókst þannig að granda flestum flaugunum tuttugu sem skotið var í áttina að Ísrael. Þegar klukkan var 2 að nóttu fengu íbúar heimild til að yfirgefa loftvarnabirgi og að morgni fimmtudags 10. maí var skólastarf með eðlilegum hætti.
Ísraelar hafa í margar vikur verið við öllu búnir af hálfu Írana í Sýrlandi og svöruðu árásinni strax með ógnarafli. Samtökin sem fylgjast með vernd mannréttinda í Sýrlandi sögðu að 23 að minnsta kosti hefðu fallið í árásum Ísraela, fimm sýrlenskir hermenn og 18 liðsmenn bandamanna sýrlensku stjórnarinnar.
Að morgni fimmtudags 10. maí sagði Avigdor Lieberman, varnarmálaráðherra Ísraels: „Við höfum ráðist á næstum alla aðstöðu Írana í Sýrlandi. Þeir mega ekki gleyma málshættinum: Rigni á okkur, skellur ofsaveður á þá. Ég vona að þessu sé lokið og þeir átti sig.“
Jonathan Conricus, talsmaður hers Ísraels, sagði að skotið hefði verið á vopnabúr Írana á flugvellinum við Damaskus, herstöðvar, njósna- og eftirlitsstöðvar fyrir utan hreyfanlegu skotpallana sem notaðir hefðu verið fyrir flaugarnar.
Af hálfu Ísraelshers væri ekki áhugi á að stigmagna átökin. Jonathan Conricus taldi „árásina af hálfu Al-Qods sýna hugrekki liðsmannanna og Qassems Soleimanis [yfirmanns liðsaflans]“ sem talinn er hafa stjórnað aðgerðinni. „Flugher okkar mætti öflugum loftvörnum,“ sagði Conricus, nokkrum tugum loftvarnaflauga hefði verið skotið á loft án þess að hitta flugvélar Ísraels.
Áður en gripið var til gagnaðgerðanna hafði ísraelska herstjórnin samband við fulltrúa Rússa með því að nota sérhannað samskiptakerfi herstjórna ríkjanna. Í ísraelskum fjölmiðlum segir að þessi átök Ísraela og Írana séu þau alvarlegustu á þessu svæði síðan í Yom Kippur stríðinu árið 1973 þegar Sýrlendingar og Egyptar réðust á Ísraela sem voru óviðbúnir en sneru vörn í sókn og lögðu undir sig Gólanhæðir.
Strax þriðjudaginn 8. maí, sama dag og Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði sig frá Íranssamningnum var send viðvörun til íbúa í Gólanhæðunum. Ísraelsher hvatti þá til að búa sig undir að þurfa að leita skjóls í loftvarnabyrgjum. Sýrlensku mannréttindasamtökin segja að þetta sama kvöld hafi flugher Ísraels að nýju ráðist á herstöð skammt frá Damaskus. Þá hafi 15 fallið, þar af 8 Íranar.
Áður eða 9. apríl gerðu Ísraelar loftárás á herstöðina T4 skammt frá borginni Homs í Sýrlandi. Þá féllu 14, þeirra á meðal íranskir hermenn. Síðan hafa Ísraelar búið sig undir svar af hálfu stjórnvalda í Teheran, annaðhvort beint frá Sýrlandi eða fyrir tilstuðlan einhverra skjólstæðinga Írana, til dæmis Hezbollah í Líbanon.
Að undanförnu hafa Ísraelar sýnt mátt sinn og gripið til forvarnar-aðgerða til að hindra að Íranar gætu skipað herafla sínum á þann veg að hann ógnaði Ísrael.
Ísraelar gerðu þungar árásir á stöðvar við borgirnar Aleppo og Hama sunnudaginn 29. apríl. Meðal skotmarka var 47. stórfylkið, herstöð í Hama-héraði. Sprenging sem varð í flugskeytageymslu mældist 2,6 Richter-stig. Talið er að minnst 26 manns hafi fallið, meirihlutinn íranskir hernaðaráðgjafar.
Heimild: Le Monde