Home / Fréttir / Ísraelar missa orrustuþotu vegna átakanna í Sýrlandi

Ísraelar missa orrustuþotu vegna átakanna í Sýrlandi

Flakið af ísraelsku þotunni.
Flakið af ísraelsku þotunni.

Ísraelsk F-16 orrustuþota féll til jarðar eftir að skotið var á hana frá Sýrlandi að lokinni árás á írönsk skotmörk í Sýrlandi, sagði í tilkynningu Írsaelshers laugardaginn 10. febrúar.

Tveir flugmenn björguðust í fallhlíf áður en vélin skall á jörðu í norðurhluta Ísraels. Þeir voru fluttir á sjúkrahús og er annar þeirra illa haldinn vegna alvarlegra sára sem hann hlaut þegar hann skaust út úr þotunni.

Óljóst er hvort þotan var skotin niður eða hrapaði nálægt ísraelska bænum Harduf. The Jerusalem Post segir að þetta sé í fyrsta sinn síðan 2006 að staðfest sé að Ísraelar hafi misst flugvél í hernaðarátökum. Þá var ísraelskri þyrlu grandað yfir Líbanon af flugskeyti frá Hezbollah-hryðjuverkamönnum, hliðhollum Írönum. Þá fórst fimm manna áhöfn þyrlunnar, þar á meðal kona, flugvirki.

Orrustuþotan var send til árása eftir að írönskum dróna var flogið inn yfir Ísrael. Drónanum var grandað.

Sýrlendingar sökuðu Ísraela um „árás“ eftir að orrustuþotur þeirra gerðu fleiri árásir.

Á Twitter-síðu ísraelska hersins (IDF) sagði að ísraelskar flugvélar hefðu skotið á sýrlenska/íranska loftvarnakerfið  í Sýrlandi. Árás hefði verið gerð á 12 skotmörk, þar á meðal 3 loftvarnakerfi og 4 írönsk hernaðarleg skotmörk. Loftvarnaflaugum hefði verið skotið í áttina að Ísrael og varnarviðbúnaður hefði verið virkjaður í norðurhluta Ísraels.

Tom Bateman, fréttaritari BBC í Mið-Austurlöndum segir ekki óvenjulegt að Ísraelar ráðist á skotmörk í Sýrlandi en það sé hins vegar til marks um „alvarlega stigmögnun“ að Ísraelar missi orrustuþotu.

_99967022_israel_jet_crash_v3_640-nc

Ísraelski herinn sagði í tilkynningu að áhöfn herþyrlu hefði tekist að granda ómönnuðu írönsku loftfari (dróna) sem sent var frá Sýrlandi inn yfir Ísrael. Herinn sagði að dróninn hefði verið greindur tímanlega á skjótan hátt og hefði verið undir eftirliti þar til honum var grandað yfir ísraelsku landi. Leifar hans eru í höndum Ísraelshers.

Sem andsvar við þessu gerðu Ísraelar árásir á írönsk skotmörk í Sýrlandi. Segir IDF að farið hafi verið langt inn í Sýrland og tekist að ná þeim árangri sem að var stefnt.

Talsmaður IDF sagði að Sýrlendingar léku sér að eldi með því að leyfa Írönum að ráðast á Ísrael. Þeir yrðu látnir gjalda fyrir það „rétt verð“. Ísraelar vildu ekki stigmagna átökin.

Talsmenn Írana, Rússa og Hezbollah í Líbanon – lykilbandamenn Bashars al-Assads Sýrlandsforseta – sökuðu Ísraela um „lygar“, það hefði ekki neinn íranskur dróni farið inn yfir Ísrael. Sögðust þeir mundu svara af festu yrðu nýjar árásir gerðar.

BBC minnir á að Íranir séu erkifjendur Ísraela og þeir hafi tekið þátt í átökum gegn óvinum Sýrlandsforseta síðan 2011. Íransstjórn hafi sent hernaðarráðgjafa, bardagasveitir sjálfboðaliða og að sögn hundruð vígamanna úr Quds-sveitum sínum, það er þeim hluta írsönsku byltingarvarðanna sem ætlað er að berjast utan Írans.

Þá er talið Íranir hafi látið flytja þúsundir lesta af vopnum og skotfærum til Sýrlands til að aðstoða Assad forseta og Hezbollah-samtökin.

Ísraelar hafa árum saman ráðist á vopnabúr og aðra staði í Sýrlandi með það að markmiði að koma í veg fyrir að háþróuð írönsk flugskeyti komist í hendur Hezbollah í Líbanon.

Ísraelar saka Írani einnig um að búa um sig í herstöðvum í Sýrlandi. Þá eru þeir einnig sakaðir um að vilja eignast flugskeytasmiðjur í Sýrlandi og Líbanon.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …