Home / Fréttir / Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, Isaac Herzog, forseti Ísraels, og David Cameron, utanríkisráðherra Breta, í Jerúsalem 17. apríl 2023.

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels í Jerúsalem að Ísraelsstjórn ætlaði að svara skotflauga- og drónaárásum Írana.

Breski utanríkisráðherrann sagði að Ísraelar byggju sig undir aðgerðir. Vonandi gerðu þeir það á þann hátt sem leiddi til sem minnstrar stigmögnunar.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, var einnig í Jerúsalem 17. apríl og ræddi við forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann. Hún hvatti Ísraela til að sýna „skynsamlega stillingu“. Hún varaði við því að á svæðinu skapaðist þannig ástand að enginn vissi til hvers það leiddi.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði eftir fundina með ráðherrunum að stjórn sín mundi taka eigin ákvarðanir í þessu efni.

Íranir segja að jafnvel „smávægilegustu“ innrás á yfirráðasvæði þeirra verði svarað „á magnaðan og harkalegan hátt“.

Aðfaranótt laugardagsins 13. apríl skutu Ísraelar og bandamenn þeirra niður nær allar um 300 flaugar og dróna sem Íranir sendu á skotmörk í Ísrael. Enginn týndi lífi í Ísrael og þar varð aðeins smávægilegt tjón. Ísraelar segjast verða að svara árás Írana því að annars missi fælingarmáttur þeirra trúverðugleika. Íranir segja að af þeirra hálfu verði að óbreyttu ekki meira aðhafst til að hefna fyrir árás sem þeir telja að Ísraelar hafi gert á sendiskrifstofu þeirra í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, 1. apríl.

Stjórnir Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja vona að ákvarðanir þeirra um nýjar efnahagsþvinganir gegn Írönum verði til að draga úr hörku Ísraela og milda ákvarðanir þeirra um eigin gagnaðgerðir. Fulltrúar G7-ríkjanna koma saman í vikunni á Ítalíu og vill Cameron að Íranir fái skýr skilaboð frá fundi þeirra.

Á Gaza-svæðinu hefur verið barist síðan 7. október 2023 þegar Ísraelar gripu til vopna vegna grimmdarverka vígamanna Hamas-hryðjuverkasamtakanna í Ísrael. Hamas-liðar myrtu um 1.200 manns í Ísrael og tóku 253 gísla. Síðan hafa Ísraelar barist við Hamas á Gaza en einnig átt í útistöðum við skjólstæðinga Írana í Líbanon, Sýrlandi, Jemen og Írak.

Í nóvember var vopnahlé í viku á Gaza og þá skiluðu Hamas-liðar um helmingi ísraelsku gíslanna. Ekki hefur tekist að koma á vopnahléi að nýju þrátt fyrir langar viðræður.

Nú í apríl drógu Ísraelar skyndilega stærstan hluta herliðs síns frá suðurhluta Gaza en þar hefur verið barist af mestum þunga á þessu ári. Ísraelski herinn hefur undanfarna daga látið mest til sín taka á miðhluta Gaza, en svæðið er alls 41 km á lengd og tveir til þrír km á breidd.

Vestrænar ríkisstjórnir sem upphaflega studdu Ísraela eindregið í átökum þeirra við Hamas hafa í vaxandi mæli lýst áhyggjum vegna mannfalls almennra borgara í Gaza-átökunum og hvatt til tafarlauss vopnahlés.

Ísraelar segja að barist verði þangað til Hamas hafi verið upprætt. Hamas segist ekki afhenda gísla sína án þess að hlé verði á bardögum sem leiði til loka átakanna.

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …