Home / Fréttir / Ísrael: Stjórnarmyndun mistekst – kosið að nýju

Ísrael: Stjórnarmyndun mistekst – kosið að nýju

 

Kosningaspjöldin dregin fram að nýju.
Kosningaspjöldin dregin fram að nýju.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur mistekist stjórnarmyndun að loknum þingkosningunum fyrir sex vikum. Þing Ísraels, Knesset, samþykkti þess vegna miðvikudaginn 29. maí að boðað skyldi til kosninga að nýju í september 2019.

Atkvæði féllu 74-45 með því að þing yrði rofið og kosið að nýju 17. september.

Síðast var kosið 9. apríl 2019 og þá gáfu úrslitin til kynna að Netanyahu gæti myndað samsteypustjórn í fimmta sinn en Likud-flokkur hans hlaut 35 þingsæti af 120 í Knesset.

Eftir að hafa mistekist stjórnarmyndunin lagði Likud-flokkurinn fram tillöguna um þingrof og nýjar kosningar til að komast hjá því að Reuven Rivlin, forseti Ísraels, veitti öðrum en Netanyahu umboð til stjórnarmyndunar.

Netanyahu hefur leitast við að sætta sjónarmið milli væntanlegra samstarfsflokka um hægri stjórn í Ísrael. Þrátt fyrir mikla reynslu á þessu sviði tókst honum ekki að brúa bilið á milli þjóðernissinnaða, veraldlega flokksins

Yisrael Beiteinu sem Avigdor Lieberman, fyrrv. varnarmálaráðherra leiðir, og ofur-bókstafstrúarmanna í öðrum flokkum sem neita að sinna herskyldu.

Samhliða því sem Netanyahu berst fyrir lífi sínu á stjórnmálavettvangi á hann í útistöðum við saksóknara sem líklegt er að ákæri hann fyrir mútur, frjársvik og trúnaðarbrot á næstu mánuðum.

Netanyahu vill að samstarfsflokkar sínir samþykki lagabreytingar sem tryggi honum friðhelgi og dragi úr valdi hæstaréttar. Stjórnarandstaðan leggst hart gegn þessu og þúsundir manna hafa mótmælt þessum hugmyndum á götum úti. Nú reynir á afstöðu kjósenda til þeirra.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …