Home / Fréttir / Ísland virkur þátttakandi í varnarsamvinnu

Ísland virkur þátttakandi í varnarsamvinnu

Stuðningur við Úkraínu, þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi og mikilvægi þessa að efla þátttöku í öryggis- og varnarsamstarfi voru meðal þess sem Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra fór yfir í ræðu á hádegisfundi Varðbergs þriðjudaginn 14. nóvember.

Í ræðunni vék ráðherra að mikilvægi þeirra pólitísku sáttar sem þjóðaröryggisstefnan skapaði um varnarmálin, aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að halda áfram að styðja varnarbaráttu Úkraínu og efla fælingar- og varnargetu Atlantshafsbandalagsins. Huga þyrfti sérstaklega að breyttri stöðu Ísland, Norður-Atlantshafsins og norðurslóða í öryggispólitísku samhengi sem birtist í auknum umsvifum og viðveru bandalagsríkja á svæðinu. Stuðningur Íslands við eftirlit og aðgerðir á Norður-Atlantshafi væru hluti af gagnkvæmum varnarskuldbindingum sem standa þyrfti vel að samhliða aukinni þátttöku og framlögum til fjölþjóðlegrar varnarsamvinnu.

„Það er ekki lengur valkvætt að taka þátt og axla ábyrgð. Ég mun beita mér fyrir því að við, eins og önnur bandalagsríki, leggjum enn meira af mörkum, bæði hér heima og í fjölþjóðlegu varnarsamstarfi.“

Bjarni gerði vaxandi samstarf Norðurlandanna að umtalsefni og sagði aðild Finnlands og von bráðar Svíþjóðar styrkja varnir Atlantshafsbandalagsins og stórauka öryggi íbúa Norðurlandanna. Hann sagði grunnstefnu íslenskra stjórnvalda vera áhersluna á mikilvægi varðveislu friðar og stöðugleika á norðurslóðum. Loftslagsbreytingar, sókn í auðlindir, opnun siglingaleiða og vaxandi hernaðarumsvif Rússlands skapi nýjar áskoranir sem þurfi að mæta. „Aukið eftirlit, viðvera og viðbúnaður bandalagsríkja er grundvallaratriði í þeim efnum þegar Rússland er á allt annarri vegferð,“ sagði Bjarni.

Í máli sínu fór ráðherra einnig yfir þær áskoranir sem tengjast fjölþáttaógnum og hvernig stjórnvöld hafa unnið að því að mæta þeim innanlands og í samstarfi við önnur ríki. „Kannski undirstrika þessar áskoranir fyrst og fremst mikilvægi þess að efla áfallaþol og viðnámsgetu samfélaga,“ sagði hann. Það sé verkefni stjórnvalda, fyrirtækja og í raun alls almennings.

Ræðan í heild sinni er hér á PDF sniði.

Ræðuna má einnig lesa hér.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …