Home / Fréttir / Ísland leiðir samráðshóp innan ÖSE

Ísland leiðir samráðshóp innan ÖSE

Höfuðstöðvar ÖSE í Vínarborg.
Höfuðstöðvar ÖSE í Vínarborg.

 

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu 1. október kom fram að Guðni Bragason fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hefði tekið að sér verkefni er snýr að samningnum um takmörkun hefðbundins herafla í álfunni (e. Treaty on Conventional Armed Forces in Europe (CFE)).  Nánar tiltekið þá tók Guðni við formennsku í svokölluðum sameiginlegum samráðshópi sem á ensku kallast Joint Consultative Group eða JCG.  Hlutverk hópsins er að fylgjast með því að ríkin sem eru aðilar að CFE samningnum uppfylli skyldur sínar.

Fjármál verða ofarlega á baugi hjá samráðshópnum.  Þannig þarf að semja á ný um fjárhagssamkomulag milli JCG hópsins, nefndar sem sér um að framfylgja samningi um opna lofthelgi (sem á ensku kallast The Open Skies Consultative Commission (OSCC)) og skrifstofu ÖSE.  Hefur Guðni skipað vinnuhóp til þess að fást við það mál.  Það flækir málið að nokkur ágreiningur hefur verið um fjárhagsmál JCG hópsins, annars vegar milli aðildarríkja og skrifstofu ÖSE og hins vegar á milli aðildarríkja JCG og Rússlands.  Rússland hætti þátttöku í JCG hópnum 2016 og hætti öllum greiðslum til starfsemi hans.  Ærin verkefni bíða því Guðna í hinu nýja starfi.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

Stofnunin sem Guðni Bragason er fastafulltrúi hjá þ.e. ÖSE er ekki oft í fréttunum hér á landi.  Þó er um afar mikilvæga alþjóðlega stofnun að ræða sem á merka sögu að baki.  ÖSE á rætur sínar að rekja til ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE).  Var hún haldin að undirlagi Sovétmanna.  Markmið þeirra var að semja um landamæri ríkja í Evrópu nokkuð sem þeir töldu að myndi auðvelda þeim að halda stjórn yfir ríkjunum í austanverðri álfunni.  Vesturveldin voru tilbúin að taka þátt til þess að viðhalda þíðu í samskiptum risaveldanna auk þess sem ræða átti mannréttindi á ráðstefnunni.  Stjórnvöld í Kreml áttuðu sig ekki á mikilvægi málaflokksins og það átti eftir að reynast þeim dýrkeypt.  RÖSE auðveldaði baráttumönnum fyrir mannréttindum fyrir austan járntjald að vekja athygli á mannréttindabrotum þar.

RÖSE hófst með formlegum hætti þann 3. júlí 1973.  Þrjátíu og fimm ríki tóku þátt í ráðstefnunni.  Var hún í þremur hlutum.  Hún hófst í Helsinki en viðræðurnar áttu sér stað í Genf.  Þegar aðildarríkin voru búin að koma sér saman um samningsdrög var aftur haldið til Helsinki og þar var Helsinki sáttmálinn undirritaður um mánaðarmótin júlí/ágúst 1975.  Þrjár ráðstefnur undir merkjum RÖSE voru haldnar á seinni hluta áttunda áratugarins og þeim næsta til að bæta samskipti austurs og vesturs enn frekar auk smærri funda.

Þegar Sovétríkin liðu undir lok árið 1991 var þörf á að breyta fyrirkomulaginu sem komið var á fót með RÖSE.  Parísarsamningurinn um nýja Evrópu (e. The Charter of Paris for New Europe) sem undirritaður var árið 1990 var upphafið að breytingum hjá RÖSE.  Í kjölfarið var ákveðið að koma á laggirnar stofnun er tæki yfir verkefni hennar og fékk hún nafnið Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.  Skyldi ÖSE samanstanda af skrifstofu, ráðgjafaráði, þingi, átakavarnasetri og mannréttindanefnd.  Helstu verkefni ÖSE eru að koma í veg fyrir átök, leysa úr þeim sem ekki er hægt að koma í veg fyrir og veita aðstoð þegar átökum líkur.

Samningurinn um takmörk á hefðbundnum herafla í Evrópu

ÖSE hefur fylgst með að samningurinn sé virtur en stofnunin kom hins vegar ekki að gerð hans.  Sögu samningsins má rekja til samkomulags leiðtoga risaveldanna árið 1972 um að samhliða Helsinki ferlinu skyldi líka ræða vopnaeign hernaðarbandalagana tveggja í Evrópu.  Markmiðið var að stuðla að jafnræði í herafla þeirra nokkuð sem átti að draga úr hættu á skyndiárásum og ekki átti að vera hægt að standa í meiriháttar hernaðaraðgerðum í Evrópu.  Samningsaðilar áttu að geta fylgst með því hvort aðildarríkin færu eftir reglunum sem samið yrði um.

Viðræður um CFE samninginn áttu sér talsverðan aðdraganda og hófust ekki fyrr en árið 1989 í Vin.  Lauk þeim ári síðar í París.  Samningsaðilar voru tuttugu og tvö NATO ríki og Varsjárbandalagsríki.  Stuttu eftir að samningurinn var staðfestur gjörbreyttist staða öryggismála í Evrópu og því var árið 1999 skrifað undir nýjan samning í Istanbúl sem átti að endurspegla örygggismál í álfunni eftir kalda stríðið.  Sá samningur var hins vegar aldrei staðfestur af NATO ríkjunum því þau sögðu Rússa ekki fara eftir upprunalegu ákvæðunum.  Gengu klögumál á víxl og sögðu Rússar CFE samningnum upp árið 2007.

Eftirlitsflug

Minnst var á nefnd sem á ensku kallast The Open Skies Consultative Committee í byrjun greinarinnar.  Hlutverk hennar er að fylgjast með því að samningur um eftirlit með vopnaeign ríkja sem skrifuðu undir hann sé virtur.  Á ensku kallast samningurinn Open Skies Treaty sem þýða mætti sem yfirflugseftirlit.  Hugmyndin að honum kom frá Bandaríkjamönnum á sjötta áratugnum.  Gekk hún út á það að risaveldin gætu dregið úr spennu sín á milli með því að leyfa ríkjunum að fljúga eftirlitsflug yfir hernaðarmannvirki hvors annars.  Sovétmenn féllust ekki á þetta en um þremur áratugum síðar endurvakti George H. W. Bush forseti hugmyndina í þeirri von að auka traust milli ríkja NATO og Varsjárbandalagsins.  Viðræður um tillöguna hófust í upphafi 10. áratugarins og árið 1992 var skrifað undir samninginn.  Tók hann gildi tíu árum síðar.  Tuttugu og fjögur ríki skrifuðu undir hann en í dag eru aðildarríkin þrjátíu og fjögur.

Kynningarstarf skiptir miklu

Þó ÖSE búi ekki yfir sömu úrræðum og Atlantshafsbandalagið þá gegnir stofnunin samt mikilvægu hlutverki í öryggiskerfi Evrópu.  Því er bagalegt hvað Íslendingar vita lítið um stofnunina.  Hér verður því haldið fram að hún geti að nokkru leyti sjálfri sér um kennt því kynningarstarf hennar mætti vera öflugra.  Þetta getur undirritaður staðfest en árið 2015 komu nokkrir ráðamenn ÖSE til Íslands í tilefni þess að þá voru fjörtíu ár liðin frá undirritun Helsinkisáttmálans.  Var boðið upp á viðræður við þá sem áhugamönnum um alþjóðamál hefði án efa  þótt spennandi tækifæri.  Fáir þeirra virðast hins vegar hafa frétt af viðburðinum því sárafáir komu á fundinn

 

.

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …