
Á undanförnum 10 árum hefur dregið úr friði í heiminum, einkum vegna átaka í Mið-Austurlöndum og Afríku. Ísland er talið friðsamasta ríki heims, Nýja-Sjáland er í öðru sæti. Þetta kemur fram í 12. árskýrslu áströlsku stofnunarinnar Institute for Economics and Peace (IEP) sem birt var í London miðvikudaginn 6. júní.
Í samtali við þýsku fréttastofuna Deutsche Welle (DW) sagði Steve Killelea, forstjóri IEP,: „Það er jafnt og þétt grafið undan heimsfriði. Þetta hefur þróast á þennan veg í um það bil áratug.“
Hann segir að átökin í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og áhrif þeirra á öðrum svæðum ráði mestu um þessa neikvæðu þróun.
IEP notar kvarða til að mæla frið í einstökum löndum (Global Peace Index (GPI)). Hann sýnir að friðsemd hafi minnkað í 92 löndum árið 2017 en aukist í 71 landi. Killelea segir að þetta sé fjórða árið í röð sem þróunin sé í þessa neikvæðu átt.
Ríkin sem mælast neðst af ríkjunum 163 eru Sýrland, Afganistan, Suður-Súdan, Írak og Sómalía.
GPI sýnir að á árinu 2017 batnaði ástandið mest í Afríkulöndunum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Gambía hafi til dæmis hækkað um 35 sæti á listanum, meira en nokkurt annað land. Líbería, Búrundí og Senegal séu einnig meðal ríkja sem hækka mest.
IEP skiptir heiminum í níu hluta og af þeim er mestur friður í Evrópu. Fimm friðsömustu ríki heims eru eru: Ísland, Nýja-Sjáland, Austurríki, Portúgal og Danmörk.
Killelea segir að dregið hafi úr útgjöldum til hermála í 104 löndum undanfarinn áratug. Fækkað hafi í herjum 115 landa. Hins vegar hafi mannfall á vígvöllum aukist um 246% á sama tíma og vegna hryðjuverka um 203%.
Við mat á samfélagslegu öryggi lítur IEP á tíðni morða, fjölda fanga, fjölda lögreglumanna og einnig viðhorf til glæpa. Við mat á herfræðilegum þáttum er litið til fjölda hermanna, hlutfalls útgjald til hermála af efnahag ríkja og einnig hugsanlegs útflutnings á vopnum.