Home / Fréttir / Íslamistar herja í Mósambík – rússneskir málaliðar kallaðir á vettvang

Íslamistar herja í Mósambík – rússneskir málaliðar kallaðir á vettvang

Rússneskir málaliðar úr Wagner-hópnum.
Rússneskir málaliðar úr Wagner-hópnum.

Í suðaustanverðri Afríku er ríkið Mósambík.  Það liggur við Indlandshaf svo til beint á móti eyjunni Madagaskar.  Saga landsins nær langt aftur í aldir en fyrstu Evrópubúarnir sem komu þangað voru þátttakendur í  landafundaleiðangri Portúgalans Vasco Da Gama árið 1498.  Portúgalir réðu landinu næstu fimm aldir en það hlaut sjálfstæði árið 1975.  Við tók kommúnistastjórn en eftir langvinna borgarastyrjöld  var lýðræði komið á árið 1994.  Blikur eru nú aftur á lofti í Mósambík.  Breska vikuritið The Economist fjallaði nýlega um stöðu mála þar.

Landið er gjöfult frá náttúrunnar hendi.  Þrátt fyrir þetta hefur stjórnvöldum ekki tekist að bæta hag landsmanna mikið og ríkið er eitt hið fátækasta í Afríku.  Fyrir nokkrum árum hófst vinnsla á miklum gaslindum undan strönd landsins.  Þær eru svo stórar að sumir spá því að Mósambík kunni að þróast í sömu átt og arabaríkið Katar sem hefur efnast mikið á nýtingu náttúruauðlinda.

Óvíst er þó að Mósambík verði líkt og Katar í bráð því að átök hafa brotist út í Cabo Delgado,  nyrsta héraði landsins og ógna þau stöðugleika í ríkinu.  Uppreisnarmennirnir eru íslamskir bókstafstrúarmenn sem kalla síg al-Shabab (ekki má rugla þeim við samnefnd samtök sem herja á Sómalíu) sem þýða má sem ungliðahreyfingin.  Stjórnvöld hafa lengi vanrækt Cabo Delgado-héraðið, vannæring meðal barna er til dæmis alvarlegt vandamál þar.  Þá er ójöfnuður þar meiri en annars staðar í Mósambík og héraðsbúar reka lestina hvað varðar læsi landsmanna.

Flestir íbúar Mósambík eru kristnir en í Cabo Delgado er meirihlutinn múslímar sem aðhyllast hófsaman Súfisma.  Fyrir um áratug voru Ahlu Sunnah Wa-Jamo samtökin, undanfari al-Shabab, stofnuð.  Leiðtogar þeirra héldu því fram að trúarleiðtogar í Cabo Delgado veittu glæpasamtökum og stjórnvöldum í Maputo, höfuðborg Mósambík,  liðsinni við að kúga íbúa héraðsins.  Al-Shabab samtökin létu ekki næga að kvarta yfir ástandinu í héraðinu, árið 2015 hófu þau að þjálfa liðsmenn sína í skæruhernaði. Samtökin hófu vopnaða baráttu gegn stjórnvöldum árið 2017.

Stjórnvöld brugðust við með harkalegum hætti.  Fjöldi manns hefur verið handtekinn.  Fréttaritari The Economist segir líklegt að margir þeirra hafi ekkert til saka unnið.  Stjórnin í Maputo sendi líka hersveitir til Cabo Delgado til að stilla til friðar þar.  Það skilaði hins var litlum árangri enda voru þær illa vopnum búnar.  Ekki bætti úr skák að fáir hermenn töluðu tungumál heimamanna og höfðu auk þess lítinn áhuga á verkefninu.  Stjórnvöld snéru sér því í fyrra til Wagner-hópsins, skuggalegra samtaka rússneskra málaliða með tengsl við Kreml.  Fréttamönnum hefur gengið illa að fá upplýsingar um verkefni þeirra í Mósambík.  Þeim hefur þó greinilega ekki tekist að ná tökum á ástandinu og talið er að minnsta kosti ellefu Wagner-liðar hafi fallið í valinn í fyrra.  Mannfall almennra borgara í átökunum frá 2017 er talið nema rúmlega 1.000 manns.  Um það bil 100.000 hafa neyðst til þess að flýja heimili sín.

Ýmislegt er enn á huldu um starfsemi al-Shabab samtakanna.  Þannig er óljóst hvort þau hafi tengsl við hryðjuverkasamtök á borð við Ríki íslams .  Hvað sem því líður er nú hætta á því að bókstafstrúarmenn í öðrum löndum sunnanverðrar Afríku fylgi fordæmi al-Shabab og hefji vopnaða baráttu gegn stjórnvöldum.  Slíkt væri mikil ógæfa fyrir íbúa heimshlutans enda hefur hann að mestu verið laus við þess háttar ógn ólíkt öðrum landsvæðum í Afríku.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

 

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …