Home / Fréttir / Íslamskur öfgahyggjumaður leyndist innan þýsku leyniþjónustunnar

Íslamskur öfgahyggjumaður leyndist innan þýsku leyniþjónustunnar

Höfuðstöðvar þýsku leyniþjónustunnar, skammt frá Köln.
Höfuðstöðvar þýsku leyniþjónustunnar, skammt frá Köln.

Starfsmaður þýsku leyniþjónustunnar (Bundesamt für Verfassungsschutz, BfV) gekk íslamistum á hönd án þess að vitað færi að hann hefði fallið fyrir öfgahyggju. Um er að ræða Þjóðverja sem fæddist á Spáni. Hann er sakaður um að hafa deilt trúnaðarupplýsingum á spjallsíðu íslamista.

BfV staðfesti miðvikudaginn 30. nóvember að 51 árs starfsmaður leyniþjónustunnar hefði verið handtekinn vegna gruns um njósnir og aðild að hryðjuverki íslamista. Þá kom einnig fram að hann hefði „með leynd aðhyllst öfgahyggju“.

Í Der Spiegel var sagt frá því þriðjudaginn 29. nóvember að fjölskyldu mannsins hefði verið ókunnugt um að hann hefði snúist til múhameðstrúar árið 2014.

Maðurinn var handtekinn í Düsseldorf sakaður um að hafa miðlað trúnaðarupplýsingum til annars notanda spjallsíðu öfgahyggjumanna. Hann er einnig sakaður um að hafa safnað upplýsingum um tímasetningar og framkvæmdaatriði vegna aðgerða gegn öfgahyggjumönnum.

Saksóknarar segja að maðurinn, fyrrverandi bankastarfsmaður, hafi ekki verið ráðinn til starfa hjá BfV fyrr en í apríl 2016 þegar hann settist í nýjan aðgerðahóp til að fylgjast með sístækkandi flokki Salafista (íslamskra öfgamanna) í Þýskalandi.

Í Die Welt segir frá því að hann hefði einnig grobbað af því að hafa gert áætlun um að sprengja eigin vinnustað í loft upp. Yfirvöld segja að hann hafi þó ekki stigið nein skref til að hrinda áætluninni í framkvæmd.

Sagt er að maðurinn hafi lýst slíkri árás á „trúlausa“ sem „þóknanlegri Allah“.

Hér er um fjögurra barna föður að ræða en fylgst hafði verið með honum í fjórar vikur áður en hann var handtekinn og hnepptur í varðhald.

BfD fylgist með því sem talið er geta brotið gegn stjórnarskrá (Verfassung) og stjórnskipun Þýskalands.

Hans Georg Maassen, yfirmaður BfD, sagði fyrir nokkru í samtali við Reuters-fréttastofuna að stofnunin teldi um 40.000 íslamista í Þýskalandi og 9.200 þeirra væru öfgahyggjumenn.

„Við erum skotmark hryðjuverkamanna íslamista og við verðum að telja að Daesh (Ríki íslams) eða önnur samtök muni vinna hryðjuverk í Þýskalandi, geti þau það,“ sagði Maassen í samtalinu.

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …