Home / Fréttir / Ischinger segir heiminn ekki hafa verið nær styrjöld síðan 1991

Ischinger segir heiminn ekki hafa verið nær styrjöld síðan 1991

Wolfgang Ischinger
Wolfgang Ischinger

Wolfgang Ischinger, forstöðumaður München-öryggisráðstefnunnar, sagði föstudaginn 16. febrúar að styrjaldarógnin í heiminum væri nú meiri en nokkru sinni síðan árið 1991.

Í samtali við DW-fréttastofuna þýsku sagði Ischinger: „Ég hef áhyggjur; ég tel ástand öryggismála í heiminum sé óstöðugra núna en nokkru sinni frá falli Sovétríkjanna.“

Hann nefndi nokkur atriði sem hann taldi helst ógna heimsöryggi, þar á meðal hættu á miklum átökum í Mið-Austurlöndum, kjarnorkuvopnaágreininginn við Norður-Kóreumenn og spennuna milli Vesturlanda og Rússa, að hluta vegna óleystu deilunnar um ráð yfir austurhluta Úkraínu.

Ischinger sagðist hafa miklar áhyggjur af ástandinu í Sýrlandi þar sem nokkrar voldugar erlendar þjóðir, þar á meðal Rússar, Bandaríkjamenn og Tyrkir, hefðu dregist inn í langvinn átök.

Hann vék sérstaklega að nýrri sókn Tyrkja inn yfir landamæri Sýrlands í Afrin. Hún kynni að leiða til árekstra við Bandaríkjamenn, samaðila Tyrkja að NATO.

„Hvers konar hættuástand skapaðist innan NATO ef til raunverulegs áreksturs kæmi milli herja Tyrkja og Bandaríkjamanna á svæðinu?“ spurði hann og sagði ástandið mjög óvenjulegt.

Ischinger sagði að almennt mætti rekja mörg vandamál á sviði öryggismála til þess að traust skorti milli ólíkra aðila og þeir skiptust ekki á skoðunum.

„Gagnkvæmt traust er meðal lykilatriða, vilji menn vinna að hnattrænum stöðugleika,“ sagði hann. Hætta væri á „vanmati og misskilningi“ milli Rússa og Bandaríkjamanna væri ekki um stöðug skoðanaskipti að ræða.

Ischinger sagði af og frá að München-öryggisráðstefnan, sem hófst föstudaginn 16. febrúar, yrði vettvangurinn þar sem greiða mætti úr öllum þessum vanda.

„Ég býst ekki við að á München-öryggisráðstefnunni verði allt í einu eitthvert kraftaverk og allt fari á betri veg. Ég býst við og vona að þeir tali að minnsta kosti hver við annan, Rússar við Bandaríkjamenn, Netanyahu [forsætisráðherra Ísraels] og einhverjir á hans svæði sem falla honum ekki í geð.“

Hann sagðist einnig vona að menn frá Sádí-Arabíu ræddu við menn frá Íran og þá yrði einnig gagnlegt ef Ísraelar og Íranir ræddu saman.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …