
Vísindamenn sem rannsaka breytingar vegna áhrifa hlýnunar jarðar í norðurhöfum telja breytingar í Barentshafi svo örar að frekar beri að líta á hafsvæðið sem hluta af Atlantshafi en Norður-Íshafi, segir í The Washington Post fyrir nokkrum dögum.
Vitnað er í Sigrid Lind við hafrannsóknastofnunina í Tromsø sem segir að breyting á seltu og hitastigi sýni að Atlantshaf sé að breiðast út á hafsvæðinu og breyta eðli þess.
Vitnað er í grein eftir Lind og tvo starfsfélaga hennar við hafrannsóknastofnunina við háskólann í Björgvin sem birtist í vikunni í Nature Climate Change. Þar er bent á að skilin milli Atlantshafs og Norður-Íshafs séu ekki aðeins landfræðileg heldur einnig náttúrufræðileg.
Suðurhluti Barentshafs er mildari en norðurhlutinn sem þar til nýlega líktist íshafi með rekís sem kælir yfirborðið en undir því eru hlýrri Atlantshafsstraumar. Með minni rekís breytist þetta, ferskt vatn minnkar á yfirborðinu vegna ísbráðnunar. Undanfarið hefur verið lítið um hafís í Barentshafi. Nú er risastórt svæði til dæmis íslaust sem jafnan var hulið hafís.
Haldi þessi þróun áfram er því spáð að gjöfull þorskstofninn í Barentshafi færi sig norðar en íshafs-lífverur hopi í átt að norðurpólnum.
Þá spá ýmsir vísindamenn breytingum á veðurfari vegna þessa og telja sig nú þegar sjá merki um þær.
Jennifer Francis, norðurslóðafræðingur við Rutgers-háskóla í Bandaríkjunum, segir að bráðnun íss í Barentshafi og Karahafi geti truflað hálofta-loftstrauma og þar með kallað fram ofsaveður í Evró-Asíu, einkum um vetur.
Vísindamennirnir segja að þróuninni í norðurhluta Barentshafs verði ekki breytt. Lind segir: „Rannsóknir sýna að hafísinn hverfur líklega alveg í Barentshafi og kemur ekki aftur.“