Home / Fréttir / Írönum nóg boðið vegna hroka Rússa – afnámu heimild um afnot af flugvelli

Írönum nóg boðið vegna hroka Rússa – afnámu heimild um afnot af flugvelli

Rússnesk sprengjuþota varpar banvænum farmi sinum yfir Sýrlandi.
Rússnesk sprengjuþota varpar banvænum farmi sinum yfir Sýrlandi.

Íranir námu mánudaginn 22. ágúst úr gildi heimild til rússneskra yfirvalda um að þau gætu sent sprengjuþotur til árása í Sýrlandi frá flugvelli í Íran. Rússar sögðu þriðjudaginn 16. ágúst að þeir hefðu fengið fótfestu fyrir flugher inn í Íran. Íranir gefa ná skýringu á afturköllun heimildarinnar að opinber viðbrögð Rússa vegna hennar hafi verið óviðunandi vegna hroka þeirra og auglýsingamennsku.

Í frétt The New York Times (NYT) um málið segir að kúvending Írana og skýringar utanríkis- og varnarmálaráðuneytanna á henni gefi til kynna djúpstæða og langvinna tortryggni í garð Rússa þrátt fyrir samstöðu með þeim í stríðinu í Sýrlandi.

Hvort sem afturköllun heimildarinnar er tímabundin eða varanleg bendir hún einnig til þess að Rússar hafi misreiknað sig herfilega á viðbrögðum Írana við opinberri tilkynningu þeirra um að þeir hefðu fengið aðstöðu á Hamadan-flugvelli. Í tilkynningunni hafi birst ákafi Rússa við að sýna umheiminum að þeir ykju áhrif sín í Mið-Austurlöndum.

Ríkismiðlar í Rússlandi hafa hampað heimildinni sem sönnun fyrir því að samstarf Rússa og Írana sé að dýpka. Ekkert erlent ríki hefur átt herafla í Íran síðan í síðari heimsstyrjöldinni.

Eftir að Íranir afturkölluðu heimildina sendu rússnesk hernaðaryfirvöld frá sér tilkynningu um að flugvélarnar hefðu þegar lokið verkefni sínu. Öllum vélunum hefði verið flogið aftur til Rússlands.

Hossein Dehghan, varnarmálaráðherra Írans, sakaði Rússa um að hafa auglýst samkomulagið um afnot af fugvellinum úr hófi. Enginn samningur hefði verið gerður við Rússa. Hann sakaði rússneska ráðamenn um að hafa „brugðist trausti“ og hagað sér „ósæmilega“. Braham Ghasemi, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, sagði fréttamönnum í Teheran að heimildin hefði verið tímabundin og væri nú fallin úr gildi.

Rússar hafa stundað gífurlegan lofthernað til stuðnings Bashar al-Assad Sýrlandsforseta síðan í september 2015. Íranir styðja einnig al-Assad.

Þótt bæði Rússar og Íranir styðji Sýrlandsforseta eru markmið þeirra ekki hin sömu.  Rússar leggja höfuðáherslu á að hindra að menn hliðhollir Vesturlöndum komist til valda í Sýrlandi. Þeir eru í sjálfu sér tilbúnir til að fórna al-Assad til að ná því markmiði.

Íranir stefna að því að viðhalda og bæta valdastöðu sína í Mið-Austurlöndum með tengslum við Hezbollah í Líbanon, aðra stríðsmenn sjíta-múslima og al-Assad sem hefur lengi tryggt flutningaleiðir fyrir vopn frá Íran til Hezbollah. Sýrlandsforseti er í trúflokki alawita sem er grein sjíta-múslima en þeir ráða í Íran.

Hezbollah treystir ekki sýrlenska hernum sem Rússar styðja. Íranir hafa því lagt áherslu á að styðja við hersveitir sjíta sem eru utan Sýrlandshers. Rússneskir hershöfðingjar hafa samskipti við Sýrlandsher enda eru margir foringjar hans menntaðir í Rússlandi.

Ágreiningur er milli Rússa og Írana um afstöðuna til Ísraels. Íranir og Ísraelar eru svarnir fjandmenn. Tengsl Rússa við Ísraela eru náin enda búa milljón rússneskir innflytjendur í Ísrael.

Saga Írans geymir mörg dæmi um tilraunir rússneskra keisara til að þrengja að persneska keisaradæminu. Í huga margra Írana sem rekja sögu sína þúsund ár aftur í tímann er ekki langt um liðið frá því að Rússar voru óvinirnir sem börðust við Írani um ráð yfir Mið-Asíu og Kákasus.

Heimild: NYT

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …