Home / Fréttir / Írar „agndofa“ vegna netárásar á heilbrigðiskerfið

Írar „agndofa“ vegna netárásar á heilbrigðiskerfið

Netárás var gerð stjórnstöð heilbrigðisþjónustu Íra (HSE) og írska heilbrigðisráðuneytið föstudaginn 14. maí og þriðjudaginn 18. maí hafði tekist að endurvirkja lítinn hluta af tölvukerfi heilbrigðisþjónustunnar. Sérfræðingar í Dublin segja að árásin sem var gerð til fjárkúgunar hljóti að vekja stjórnmálamenn, fyrirtæki og almenning til vitundar um að grípa þurfi til öflugri varnaraðgerða.

Í The Irish Times er rætt við Pat Larkin, forstjóra Ward Solutions, fyrirtækis sem sérhæfir sig í vernd netkerfa. Hann segir að fyrir tveimur eða þremur árum hefði enginn hlustað á varnaðarorð sín eða annarra um nauðsyn netöryggis. Nú sé annað uppi á teningnum og fólk geri sér betri grein fyrir hve mikið sé í húfi.

Hann segir að það sé ákaflega ábatasamt fyrir netdólga að taka tölvukerfi í gíslingu og krefjast greiðslu fyrir að virkja þau að nýju. Segir Larkin að hagkerfi netglæpa sé nú verðmætara en ólögleg viðskipti með fíkniefni.

Hann segir að almenningur kunni að vera „agndofa“ yfir að alþjóðlegur glæpahringur ráðist á opinbert heilbrigðiskerfi og ógni öryggi sjúklinga, árás af þessu tagi sé þó í samræmi við þróun sem hann hafi séð. „Fyrir tveimur eða þremur árum glímdi fyrirtæki okkar við gíslatökumenn á tveggja vikna fresti; nú gerast slík atvik daglega ef við lítum á tíðni þeirra meðal viðskiptavina okkar.“

Í frétt blaðsins segir að COVID-19-faraldurinn hafi skapað „ákjósanlegustu aðstæður“ fyrir glæpamenn til að nýta sér veika hlekki í netvörnum og tæknilegum lausnum sem komið hafi til sögunnar þegar fólk hafi með skömmum fyrirvara hafið fjarvinnu heiman frá sér. Við það hefðu skapast ný tækifæri til að brjótast inn í netföng og póstföng.

Þá hafa glæpamenn nýtt sér að netverslun jókst vegna faraldursins. Þeir hafi reynt að stela kvittunum verslana, endurgreiðsluseðlum frá flugfélögum, endurgreiðsluseðlum skatta, hlutabótakvittununum og jafnvel boðsbréfum í bólusetningu í því skyni að finna leið til að brjótast inn í UT-kerfi. Fyrirtæki hafi á hinn bóginn einbeitt sé að því að innleiða kerfin og nýta þau til viðskipta en ekki hugað nægilega vel að öryggisþættinum, segja sérfræðingar við The Irish Times.

Írska heilbrigðisþjónustan (HSE) segir að sjúklingar sem ekki þarfnist bráðra aðgerða geti búist við „umtalsverðum töfum“ vegna netárásarinnar. Þetta kom fram í tilkynningu að kvöldi mánudags 17. maí. Aðgangur að sjúkraskrám, rannsóknarniðurstöðum og greiningum hefði takmarkast mikið vegna árásarinnar.

HSE segist ekki hafa greitt neitt lausnargjald en með aðstoð sérfræðinga sé nú reynt að bjarga því sem bjargað verði samhliða því sem öryggisskoðun fari fram á öllu tölvukerfinu, það er um 80.000 tækjum. Til bráðabirgða megi ef til vill finna lausnir sem auðveldi þjónustu við sjúklinga.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …