Home / Fréttir / Íranir ráðast á Ísraela sem hugsa sitt ráð

Íranir ráðast á Ísraela sem hugsa sitt ráð

Gagneldfalugum sskotið á loift frá ísrael.

Íranir gerðu loftárásir á Ísrael aðfaranótt sunnudagsins 14. apríl með drónum, stýriflaugum og skotflaugum (e. ballistic missiles). Herstjórn Ísraels sagði sunnudaginn að tekist hefði að „eyða“ 99% af um 300 sendingum frá Íran. Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar og Jórdanir lögðu Ísraelum lið auk þess sem fréttir eru um aðstoð frá Sádí-Arabíu.

Bandaríkjastjórn gerði Ísraelsstjórn ljóst að hún myndi ekki eiga aðild að neinni árásaraðgerð gegn Íran. Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, segir að það verði grandskoðað og íhugað til hvaða ráða Ísraelsstjórn grípi eftir árás Írana.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman í New York 14. apríl og fyrir fundinn sagði António Guterres, aðalritari SÞ, að Mið-Austurlönd væru „á brúninni“. Íbúarnir þar ættu yfir sér hættu af allsherjarátökum. Nú væri rétti tíminn til að slíðra sverðin og draga saman seglin.

Styrjaldarstjórn Ísraels kom saman sunnudaginn 14. apríl. Eftir fundinn sagði Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, að herinn hefði fengið heimild „bæði til sóknar- og varnaraðgerða“. Hann sagði: „Hamas og Íran vilja kveikja bál í Mið-Austurlöndum og stigmagna ástandið á svæðinu.“

Formaður herráðs Írans sagði að markmið árásarinnar á Ísrael „hefðu náðst“. Þetta var í fyrsta sinn sem Íranir réðust sjálfir beint á Ísraela en á undanförnum árum hafa þeir staðið að baki vígamönnum í Sýrlandi og í samtökum Hezbollah, Hamas og Húta í Líbanon, á Gaza og í Jemen.

Gerð var árás á sendiskrifstofu Írans í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, 1. apríl og þar týndu yfirmenn í íranska byltingarhernum lífi. Klerkaveldið í Íran sakaði Ísraela um árásina og æðstiklerkurinn hótaði hefndum.

Hossein Amirabdollahian, utanríkisráðherra Írans, sagði sunnudaginn 14. apríl að Íranir hefðu tilkynnt nágrannaþjóðum sínum og Bandaríkjamönnum með 72 stunda fyrirvara að þeir mundu hefja loftárásir á Ísrael. Þetta hefðu þeir gert til að útiloka mikið manntjón og stigmögnun.

Bandarískur embættismaður staðfestir að svissneskir milligöngumenn hafi komið boðum frá Írönum en þeir hafi ekki miðlað neinum viðvörunum um árásinar eða á hvað ætti að ráðast. Embættimenn í Íral, Tyrklandi og Jórdaníu segjast hins vegar hafa fengið tilkynningu frá Írönum um að árásin væri á döfinni.

Daniel Hagari sagði að 170 drónum og 30 stýriflaugum hefði verið skotið í átt að Ísrael og hefði þeim öllum verið grandað utan landsins og aðeins fáeinar af 110 skotflaugum hefðu náð þangað. Stysta vegalengd milli Írans og Ísraels er um 1.000 km yfir Írak, Sýrland og Jórdaníu. Ísraelar segja að þeir hafi orðið fyrir smávægilegu tjóni í Nevatim-flugherstöðinni í suðurhluta lands þeirra.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …