
Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, sagði föstudaginn 19. júlí að Íranir hefðu tekið tvö skip á sitt vald í Hormuz-sundi. Hann sagði annað skipið sigla undir breskum fána en hitt undir fána Líberíu. Hann sagði áhafnir skipanna af ýmsum þjóðernum en líklega ekki breska ríkisborgara.
„Ekki er unnt að sætta sig við töku skipanna,“ sagði Hunt á leið til skyndifundar í ríkisstjórninni vegna atvikanna. „Virða ber siglingafrelsi og að skip geti farið ferða sinna örugg og frjáls á þessum slóðum.“
Byltingarverðir Írans höfðu áður staðfest töku sína á olíuskipinu Stena Impero sem siglir undir breskum fána. Á hinn bóginn sögðu margir í Íran að skipið Mesdar undir Líberíu-fána í eigu breska skipafélagsins Norbulk Shipping UK hefði ekki verið tekið heldur hefðu menn skroppið um borð í það með viðvörun vegna brota á umhverfisreglum.
Skipstjóri Mesdar staðfesti við skipafélagið að hann færi sinna ferða með skipið eftir stutta töf vegna komu vopnaðra mann um borð.
Stena Impero er í eigu Stena Bulk, flutningafyrirtækis með aðsetur í Svíþjóð. Eigandinn segir að íranskir hermenn hafi tekið stjórn skipsins í sínar hendur og siglt því í átt að strönd Írans.
Í yfirlýsingu Stena Bulk sagði að „að óþekkt lítið skip og þyrla“ hefðu komið að skipinu á alþjóðlegri siglingaleið og allt samband- hefði rofnað við það. Um borð væru 23 og ekki hefðu borist fréttir um neitt manntjón.
Íranska fréttastofan IRNA hafði eftir ónafngreindum heimildarmanni að Stena Impero hefði verið tekið þar sem því var siglt í öfuga átt miðað við siglingareglur á leið þess og stjórnendur skipsins hefðu ekki sinnt ábendingum.
Íranir láta til skarar skríða á þennan hátt eftir að Bretar töfðu för íransks olíuskips, Grace 1, 4. júlí skammt frá Gíbraltar á Miðjarðarhafi. Háttsettur íranskur embættismaður hótaði þá „gagnaðgerðum“ vegna atviksins.
Í fyrri viku sögðu bresk yfirvöld að íranskir hermenn hefðu reynt að ná á sitt vald bresku flutningaskipi, þá hefði breskt herskip orðið að skerast í leikinn. Þriðjudaginn 16. júlí sakaði Ayatollah Ali Khameni, stjórnandi Írana, „bresku grimmdarseggina“ um „sjórán“ og hótaði hefndum.
Fimmtudaginn 18. júlí sögðust Bandaríkjamenn hafa grandað írönskum dróna en íranskir embættismenn segja það ekki rétt.