Home / Fréttir / Íran: Kjarneðlisfræðingur drepinn – öryggiskerfið glímir við trúnaðarbrest

Íran: Kjarneðlisfræðingur drepinn – öryggiskerfið glímir við trúnaðarbrest

Bíll kjarneðlisfræðingsins eftir árásina.
Bíll kjarneðlisfræðingsins eftir árásina.

Mohsen Fakhrizadeh kjarneðlisfræðingur naut einnar mestu öryggigæslu allra Írana. Hann var hins vegar drepinn af launmorðingja föstudaginn 27. nóvember í úthverfi Teheran, höfuðborgar Írans. Skotið var að bifreið hans áður en pallbíll var sprengdur í loft upp í aðeins nokkurra metra fjarlægð frá henni. Atvikið er þriðja í röð stóratvika á innan við einu ári sem talin eru til marks um örlagarík mistök öryggissveita Íslamska lýðveldisins, þeim er stjórnað af mönnum sem hreykja sér reglulega af því að hafa stjórn á öllu þjóðlífinu.

Þar til á föstudaginn var varla hægt að finna mynd af Mohsen Fakhrizadeh á netinu. Hann naut gífurlegar öryggisgæslu enda almennt talinn faðir áætlunar Írans um smíði kjarnorkuvopna.

Mohsen Fakhrizadeh bjargaðist árið 2008 þegar vélhjólamenn reyndu að drepa hann og festu sprengju á bíl hans. Hann stökk á brott skömmu áður en bílinn sprakk.

Ísraelar stálu á sínum tíma trúnaðarskjölum um kjarnorkumál Írana. Þegar Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, kynnti efni úr gögunum árið 2018 kom í ljós að Mohsen Fakhrizadeh, sérfræðingur í smíði eldflauga, gegndi lykilhlutverki fyrir kjarnorkuhervæðingu Írana. Þá sagði ráðherrann: „Munið þetta nafn, Fakhrizadeh.“

Árið 2018 tókst útsendurum ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad að stela um 55.000 trúnaðarskjölum í Teheran. Talið er víst að flugumaður Mossad hafi þá starfað meðal þeirra sem vissu um tilvist skjalanna og hvar unnt væri að nálgast þau með innbroti.

Skjalaþjófnaður Mossad þótti á þeim tíma mikil niðurlæging fyrir öryggiskerfi íranska ríkisins, einkum Íslömsku byltingarverðina innan hers Írans. Þeir sem gæta öryggis við kjarnorkuvæðingu landsins koma aðeins úr röðum byltingarvarðanna.

Mohsen Fakhrizadeh (63 ára) var liðsmaður Íslömsku byltingarvarðanna. Hann gerðist einn þeirra ungur að árum og naut verndar þeirra eins og Qassem Soleimani hershöfðingi, yfirmaður Quds-úrvalssveitarinnar. Bandaríkjaher drap Soleimani í janúar 2020 þrátt fyrir að byltingarverðir gættu öryggis hans.

Íranska dómsmálaráðuneytið sakaði þýðanda Quds í Sýrlandi um að hafa upplýst Mossad og CIA, bandarísku leyniþjónustuna, um ferðir Soleimanis. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins sagði að Mahmoud Mousavi Majd, sem tekin var af lífi í júlí 2020, hefði „fengið aðgang að mörgum viðkvæmum sviðum með því að þykjast vera þýðandi“. Hann hefði síðan þegið stórfé frá Mossad og CIA fyrir að miðla til þeirra upplýsingum.

Það þvælist fyrir mörgum að átta sig á því hvernig Majd gat miðlað upplýsingum um ferðir Soleimanis í janúar 2020 þegar hann var opinberlega handtekinn í október 2018. Íranska dómsmálaráðuneytið og leyniþjónusta Íslömsku byltingarvarðanna hafa aldrei svarað spurningum um þetta.

Í júlí 2020 varð sprenging Natanz-kjarnorkuveri Írans og olli hún verulegu tjóni á skilvindum til að auðga úran. Talsmaður Kjarnorkustofnunar Írans sagði í sjónvarpi í ágúst að unnið hefði verið skemmdarverk í Natanz og síðar yrði upplýst um skemmdarverkamennina, það hefur ekki verið gert enn þann dag í dag.

Hossein Salami, yfirmaður Íslömsku byltingarvarðanna, sór föstudaginn 27. nóvember að Fakhrizadeh yrði hefnt. Á samfélagsmiðlum er gert lítið úr þessum orðum Salamis og hæðst að honum og öryggisvörðum hans.

„Rétt eins og þið gerðuð eftir morðið á Soleimani hershöfðingja þegar þið réðust á yfirgefna bandaríska herstöð og skutuð á sama tíma niður farþegavél fulla af saklausu fólki,“ sagði einn Twitter-notandi. Hann vísaði þar til þess að íranskir hermenn grönduðu farþegavél frá Úkraínu á flugi í lofthelgi Írans og myrtu 176 manns.

Mehdi Mahdavi Azad, landflótta íranskur blaðamaður, búsettur í Þýskalandi sagði á Twitter: „Upplýsingum um kjarnorkuáætlunina var stolið, launmorðingjar drápu vel varða einstaklinga og skemmdarverk voru unnin á kjarnorkuveri. Og öryggislögreglan hefur ekki burði til annars en handtaka og kúga blaðamenn.“

 

Heimild: DW

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …