Home / Fréttir / Íranar halda aftur af sér hernaðarlega gegn Bandaríkjamönnum

Íranar halda aftur af sér hernaðarlega gegn Bandaríkjamönnum

 

Mótmæli írarskra námsmanna við háskólann í Basra gegn Írönum og Bandaríkjamönnum miðvikudaginn 8. janúar 2020.
Mótmæli írarskra námsmanna við háskólann í Basra gegn Írönum og Bandaríkjamönnum miðvikudaginn 8. janúar 2020.

Fréttamenn segja að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi verið óvenjulega stuttorður og nákvæmur á blaðamannafundi miðvikudaginn 8. janúar þegar hann ræddi deiluna við Írana. Hann sagði að Bandaríkjastjórn mundi beita eins miklum efnahagslegum og stjórnmálalegum þrýstingi gegn Írönum og unnt væri. Hann boðaði þó ekki að árásum Írana á bandarískar herstöðvar aðfaranótt miðvikudagsins yrði svarað með gagnhernaði.

„Íranar virðast halda aftur af sér“ í átökunum við Bandaríkjamenn sagði Trump í níu mínútna langri ræðu í anddyri Hvíta hússins.

Íranir skutu drífu af flaugum á flugherstöðina Ain Al-Asad í vesturhluta Íraks og á aðra herstöð í Erbil í norðurhluta landsins aðfaranótt miðvikudagsins. Árásirnar voru ekki eins harðar og margir höfðu óttast.

„Engan Bandaríkjamann sakaði í árás írönsku ríkisstjórnarinnar í nótt,“ sagði Trump og bætti við að flaugarnar hefðu valdið „minniháttar eyðileggingu“.

Rebeccah Heinrichs herfræðingur sagði við Fox News að Íranir hefðu vafalaust getað beitt meira afli og meiri nákvæmni. Þeir ráða yfir öflugum flugskeytum sagði hún.

„Í síðustu viku gerðum við út af einn helsta hryðjuverkamann heims,“ sagði Trump miðvikudaginn 8. janúar um árásina sem gerð var 3. janúar á Soleimani, hershöfðingja Írana.

Þegar Soleimani var borinn til grafar fóru milljónir Írana út á götur og torg til að syrgja hann og meira en 50 manns týndu í lífi í troðningnum þriðjudaginn 7. janúar.

Að athöfninni lokinni var skotflaugunum beitt gegn Bandaríkjamönnum.

Á Twitter sagði mikils metinn álitsgjafi um öryggismál, Ian Bremmer: „Það er ógerlegt að kalla ekki Íran-niðurstöðuna sigur fyrir bandaríska forsetann og mikið tækifæri fyrir framtíðina.“

Strax eftir skotflaugaárásina sagði Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, á Twitter að íslamska lýðveldið vildi hvorki stríð né stigmögnun átakanna en þjóðin mundi verjast hvers kyns árás.

„Íranir svöruðu hæfilega í samræmi við 51. gr. sáttmála SÞ um sjálfsvörn með því að ráðast á herstöðvarnar þaðan sem á lúalegan hátt var ráðist á borgara okkar og háttsetta embættismenn,“ sagði Zarif á Twitter.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …