Home / Fréttir / Interpol leitar að stjórnarformanni sínum í Kína

Interpol leitar að stjórnarformanni sínum í Kína

Meng Hongwei
Meng Hongwei

Alþjóðalögreglan Interpol óskaði laugardaginn 6. október opinberlega  upplýsinga hjá kínverskum yfirvöldum um líðan Mengs Hongweis, stjórnarformanns Interpol. Með þessu stígur Interpol formlega inn í þetta mál eftir að hafa áður sagt það í höndum franskra og kínverskra stjórnvalda. Höfuðstöðvar Interpol eru í Lyon í Frakklandi.

Frönsk yfirvöld hófu föstudaginn 5. október rannsókn á ferðum Mengs eftir að eiginkona hans tilkynnti að hann hefði horfið á leið til heimalands síns Kína í fyrri viku.

Franska innanríkisráðuneytið sagði að ákveðið hefði verið að veita eiginkonunni sérstaka vernd vegna hótana í hennar garð. Þá sagði ráðuneytið einnig að Meng hefði farið frá Lyon til Kína 25. september. Eiginkona hans segir að ekkert hafi af honum spurst síðan.

Interpol segist nú bíða skýringa yfirvalda í Kína. Þau hafa þagað um Meng og laugardaginn 6. október var ekki minnst á hann í opinberum fjölmiðlum.

Meng er 64 ára að aldri og var kjörinn stjórnarformaður alþjóðalögreglunnar árið 2016. Kjörtímabili hans lýkur árið 2020. Áður var Meng aðstoðarráðherra vegna almannaöryggis í Kína og var meðal annars varaformaður eftirlitsráðs fíkniefna og forstöðumaður and-hryðjuverkastofu Kína.

Þegar Meng var kjörinn til formennsku í stjórn Interpol vakti það ugg meðal mannréttindasamtaka sem bentu á að skil milli stjórnmála og lögreglumála væru engin í Kína.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur reist herör gegn spillingu undanfarin ár. Hefur það leitt til þess að háttsettir stjórnmálamenn eru settir á bekk sakamanna.

Hong Kong-blaðið The South China Morning Post vitnaði föstudaginn 5. október í ónafngreindan heimildarmann sem sagði að Meng hefði verið „fjarlægður“ til yfirheyrslu í Kína. Ekki er ljóst hvort „aga-yfirvöld“ kínverska kommúnistaflokksins rannsökuðu hann eða hvar hann er í haldi.

Fyrir nokkrum dögum birtist heimsfræga kínverska leikkonan, Fan Bingbing, opinberlega eftir að hafa verið „týnd“ í Kína síðan í júlí. Hún sendi frá sér opinbera afsökun fyrir að hafa brotið af sér og henni var gert skylt að greiða 129 milljón dollara sekt fyrir skattsvik og önnur afbrot.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …