Home / Fréttir / Innrás Rússa endurfæddi Úkraínu, segir Zelenskíj

Innrás Rússa endurfæddi Úkraínu, segir Zelenskíj

Forsetahjón Úkraínu, Olena og Volodymyr Zelenskíj, fara með blóm að minningarreit fallinna hermanna í Kyiv,  þjóðhátíðardaginn 24. ágúst 2022.

Volodymyr Zelenskíj sagði í ávarpi til Úkraínumanna á 31. sjálfstæðisafmæli lands þeirra miðvikudaginn 24. ágúst að Úkraníu hefði „endurfæðst“ þegar Rússar réðust inn í landið 24. febrúar 2022, fyrir réttu hálfu ári. Hann hét því að rússneski herinn yrði að fullu rekinn frá Úkraínu.

„Ný þjóð birtist heiminum klukkan 4 að morgni 24. febrúar. Hún fæddist ekki, heldur endurfæddist. Þjóð sem grét ekki, öskraði eða var óttaslegin. Hún lagði ekki á flótta. Gafst ekki upp. Og gleymdi engu,“ sagði Zelenskíj forseti í tilfinningaríku þjóðhátíðarávarpi.

Forsetinn (44 ára) stóð í einkennisklæðum sínum, stuttermabol hermanna, fyrir framan helsta minnismerki sjálfstæðis landsins í Kyív og lýsti þeim ásetningi að ná aftur undir Úkraínumenn hernumdu svæðunum í austurhluta Úkraínu ásamt Krímskaga sem Rússar innlimuðu í land sitt árið 2014.

„Við látum ekki hræða okkur að samningaborðinu með byssu við höfuð okkar. Í okkar huga birtist hræðilegasta járnið ekki í eldflaugum, flugvélum og skriðdrekum heldur í hlekkjum. Ekki í skotgröfum heldur fótajárnum.“

Forsetahjónin sóttu messu í dómkirkju heilagrar Soffíu í hjarta Kyív ásamt leiðtogum allra helstu trúfélaga í Úkraínu.

Nokkrir mánuðir eru frá því að rússneski herinn hörfaði og hætti sókn sinni að Kyív. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa Rússar ekki sótt í sig veðrið við víglínuna og baráttuþrek þeirra er greinilega mun minna en hers Úkraínu sem styrkir stöðu sína dag frá degi í krafti öflugra vopna, einkum frá Bandaríkjunum.

Í tilefni þjóðhátíðardagsins tilkynnti Joe Biden Bandaríkjaforseti að Úkraínumenn fengju enn bandaríska aðstoð sem næmi þremur milljörðum dollara. Er það stærsti einstaki fjárstuðningur Bandaríkjamanna til þeirra en frá því að Biden varð forseti í fyrra er stuðningur Bandaríkjastjórnar við þá metinn á um 14 milljarða dollara.

Þúsundir almennra borgara í Úkraínu hafa fallið í valinn og eignatjón er gífurlegt. Talið er að rúmur þriðjungur 41 milljónar Úkraínumanna hafi neyðst til að flytjast búferlum vegna stríðsins og þar af hafa fjölmargir leitað skjóls í öðrum löndum.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …