
Árum saman hafa sumir stærstu bankar heims látið gífurlegt magn af illa fengnu fé flæða sín á milli segir í skýrslu alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna sem var birt sunnudaginn 20. september.
„Hagnaður af blóðugum fíkniefnaátökum, af auðæfum sem rekja má til fjársvika í þróunarlöndum, af sparnaði einstaklinga sem stolið hefur verið með fjárglæfrum (e. Ponzi scheme) hefur flætt inn og út úr þessum fjármálastofnunum þótt starfsmenn bankanna hafi gert athugasemdir við það,“ segir í Buzzfeed News og skýrslu International Consortium of Investigative Journalists (ICIJ).
Alls tóku 108 alþjóðlegir fjölmiðlar frá 88 löndum þátt í að afla upplýsinga vegna rannsóknarinnar. Hún á upptök í þúsundum grunsamlegra fjölþjóðlegra bankaskjala sem FinCEN, efnahagsbrotadeild bandaríska fjármálaráðuneytisins, gerði aðgengileg.
„Þessi skjöl sem safnað var af bönkum og látin í té sjórnvöldum en haldið leyndum afhjúpa gagnsleysi verndaraðgerða banka og hve auðvelt er fyrir glæpamenn að nýta þá sér í hag,“ segir í inngangi Buzzfeed News í Bandaríkjunum að skjölunum.
Skjölin snerta millifærslu um 2 trilljóna dollara á árunum 1999 – 2017.
Í rannsókninni beindist athyglin sérstaklega að fimm stórbönkum: JPMorgan Chase, HSBC, Standard Chartered, Deutsche Bank og Bank of New York Mellon. Þeir liggja undir ásökunum um að færa fjármuni manna sem sakaðir eru um afbrot jafnvel eftir að þeir hafa verið ákærðir eða dæmdir fyrir fjármálamisferli.
„Færslukerfi illa fengins fjár úr einum stað í heiminum í annan er orðið að lykilæð fyrir heimsbúskapinn,“ segir Buzzfeed News.
Deutsche Bank sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að regluverðir bankans hefðu „góða vitneskju“ um það sem segði í skýrslu ICIJ. Þá sagði einnig að bankinn hefði „varið umtalsverðum fjármunum til að auka eftirlit“ sitt fyrir utan að einbeita sér að því að „ganga fram af ábyrgð og virðingu fyrir skyldum sínum“.
Í rannsókninni er athygli einnig beint að skorti á heimildum fyrir bandarísk yfirvöld til að hafa stjórn á millifærslum illa fengins fjár.
Áður en niðurstaða rannsóknarinnar birtist opinberlega sendi FinCEN frá sér yfirlýsingu um að óheimil birting á bankaskjölum sé lögbrot sem kunni að hafa áhrif á þjóðaröryggi Bandaríkjanna.