
Giuseppe Conte sem ítölsku uppnámsflokkarnir tveir, Fimmstjörnu hreyfingin (M5S) og Bandalagið, höfðu tilnefnt sem forsætisráðherra sagði sig frá verkefninu að mynda ríkisstjórn sunnudaginn 27. maí eftir að forseti Ítalíu neitaði að samþykkja tillögu hans um efnahagsmálaráðherra.
Deila varð innan stjórnarflokkanna þegar Matteo Salvini, leiðtogi Bandalagsins (hægrisinnað) neitaði að samþykkja höfnun Ítalíuforseta á tillögu hans um að Paolo Savona (81 árs) andstæðingur evru-samstarfsins yrði efnahagsmálaráðherra.
Conte ræddi við fréttamenn eftir fund sinn með Sergio Mattarella forseta. Hann sagðist hafa lagt sig allan fram um að sinna verkefninu sem hann tók að sér í „fullri samvinnu“ við M5S (vinstrisinnuð) og Bandalagið. Mattarella forseti er eindreginn stuðningsmaður ESB.
Þegar niðurstaða Mattarella lá fyrir sagði Salvini að eini kosturinn í stöðunni væri að efna til nýrra kosninga.
„Í lýðræðisríki, ef við búum enn í lýðræðisríki, er aðeins eitt að gera, að leyfa Ítölum að segja skoðun sína,“ sagði Salvini við stuðningsmenn sína.
„Þetta er fordæmalaus stjórnskipulegur árekstur,“ sagði Luigi di Maio, leiðtogi M5S. „Til hvers að ganga til kosninga ef matsfyrirtækin ráða?“
Di Maio lét einnig í ljós þá skoðun að stefna mætti Mattarella fyrir ríkisrétt. Það yrði að gerast fyrst og síðan ganga til kosninga.
Mattarella sagðist hafa neitað að samþykkja að Savona yrði ráðherra því að skipun hans hefði „skapað uppnám á mörkuðum og meðal fjárfesta, ítalskra og evrópskra“. Vextir á lánum hækkuðu jafn og þétt.
Savona hefur lýst þeirri skoðun að Ítalir séu eins og „í búri“ vegna evru-aðhaldsaðgerðanna sem gripið er til að kröfu Þjóðverja.
Mattarella hefur boðað Carlo Cottarelli, fyrirverandi yfirmann hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, á sinn fund mánudaginn 28. maí. Þetta er talið benda til þess að forsetinn ætli að fela honum að leiða utanþingsstjórn.