
Marine Le Pen, leiðtogi frönsku Þjóðfylkingarinnar, fagnaði sigri Donalds Trumps innilega í París eins og hún fagnaði því í sumar þegar Bretar ákváðu að segja skilið við ESB. Florian Philippot, nánasti samstarfsmaður hennar, og frænka hennar, þingmaðurinn Marion Maréchal-Le Pen, gáfu til kynna að í forsetakosningunum á næsta ári veldu Frakkar sömu leið með því að kjósa Marine Le Pen sem forseta.
Sósíalistinn Jean-Marc Ayrault, utanríkisráðherra Frakka, þótti ganga á svig við diplómatískar hefðir þegar hann sagði: „Sigur Trumps veldur miklum áhyggjum.“ Fréttamenn höfðu á orði að sorgarsvipurinn á François Hollande Frakklandsforseta kynni ekki aðeins að endurspegla leiða vegna sigurs Trumps heldur einnig kvíða vegna eigin falls í kosningunun vorið 2017.
Anne-Elisabeth Moutet, blaðamaður bresku vefsíðunnar The Telegraph , segir að í Evrópu sé ástandið eins og í Bandaríkjunum að því leyti að útlendingamálin séu orðin að efnahagslegu og menningarlegu vandamáli sem geti leitt til byltingar gegn ráðandi öflum, elítunni. Ítalir styðji Beppe Grillo, and-ESB-sinna í sveitarstjórnarkosningum. Þá sjáist þess merki að Frans páfi sem fyrir tveimur árum söng sálumessu á eyjunni Lampedusa yfir þeim sem hafa drukknað á leið yfir Miðjarðarhaf færist nú til raunsæis í útlendingamálum. Hann hafi í fyrri viku sagt að það væri ekki „til marks um sjálfselsku“ að „takmarka“ fjölda innflytjenda.
Minnt er á að Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi snúið rækilega við blaðinu í útlendingamálum. Hún hafi nýlega áréttað lokun þýsku landamæranna fyrir flóttafólkinu sem hún lofaði að taka á móti fyrir aðeins einu ári. Hún stendur einnig frammi fyrir harðri kosningabaráttu á árinu 2017.
Forseti Frakklands verður að njóta stuðnings meirihluta kjósenda. Þess vegna gerir stjórnarskráin ráð fyrir tveimur umferðum þegar kosið er. Nú er almennt talið að Marine Le Pen fái flest atkvæði í fyrri umferðinni í apríl 2017 með 30 til 40% atkvæða. Ólíklegt þykir að hún sigri í seinni umferðinni tveimur vikum síðar. Óljóst er enn hver verður í framboði fyrir mið-hægrimenn, Lýðveldisflokkinn.
Alain Juppé, borgarstjóri í Bordeaux og fyrrverandi forsætisráðherra, er sigurstranglegastur í prófkjöri innan Lýðveldisflokksins sem verður fyrir lok þessa mánaðar. Miðvikudaginn 9. nóvember varaði Juppé við „hættunni á öfgum og lýðskrumi“ sem kynni að steðja að „lýðræðinu“ vegna sigurs Trumps.
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti og helsti keppinautur Juppés í prófkjörinu, var varkárari í orðavali þegar hann ræddi um sigur Trumps. Hann viðurkenndi hættuna af því að hlusta ekki á raddir fólksins og varaði við andvaraleysi stjórnmálamanna og álitsgjafa sem teldu sig vita allt best.
Sarkozy hefur á undarlegan hátt tekist að finna sér stöðu utan kerfis ráðandi afla eftir að hann ákvað fyrir tveimur árum að sækja gegn Hollande forseta vegna lélegra stjórnarhátta hans.
Anne-Elisabeth Moutet segir að enginn þurfi að segja neitt opinberlega en allir skynji að draga megi samhliða línur milli boðskaparins um að „allt er betra en Trump“ sem dugði ekki fyrir Hillary Clinton og þess sem sagt sé meðal ráðamanna í París um að „allt er betra en Sarkozy“ enda sé hann grófur, óuppdreginn, sjálfselskur, drottnunargjarn og raunar einnig lýðskrumari.
Marine Le Pen sér ógnina sem felst í framgöngu Sarkozys: Meginboðskapur hennar til franskra kjósenda er að hún sé ekta en Sarko ekki annað en eftirlíking.
Sannleikurinn er sá, segir Anne-Elisabeth Moutet að í Frakklandi er offramboð af stjórnmálamönnum sem yrðu Le Trump Français, franski Trump. Þeir viti eins og er að góður árangur skili enn betri árangri.
Heimild: The Telegraph