
Kínverskir ferðamenn í Finnlandi hafa til þessa ekki átt mátt sitja undir stýri á finnskum vegum þar sem ökuskírteini þeirra hafa ekki verið gild að finnskum lögum. Kína á ekki aðild að 19. samþykkt Sameinuðu þjóðanna um umferðaröryggi og þess vegna hafa finnsk yfirvöld ekki viljað viðurkenna ökuskírteini Kínverja. Nú verður þessu hins vegar breytt verði stjórnarfrumvarp sem lagt verður fyrir finnska þingið í september að lögum.
Krafan um að heimila Kínverjum að aka í Finnlandi hefur komið frá fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Talsmaður samgönguráðuneytisins í Helsinki segir að lagabreytinguna megi rekja til þessara krafna. Einkum kvarti fyrirtæki í Lapplandi undan því að geta ekki veitt Kínverjum þá þjónustu sem þeir óska.
Stefnt er að því að nýju lagaákvæðin taki gildi í júlí árið 2018. Bílaleigur á borð við Hertz hafa lýst mikilli ánægju með stefnubreytingu stjórnvalda. Telur forstjóri Hertz í Finnlandi að umsvif fyrirtækisins aukist mikið.
Ferðamönnum frá Kína og öðrum löndum Austur-Asíu fjölgar mjög í Finnlandi. Þeir streyma til Lapplands til að sjá jólasveininn, hreindýr og norðurljósin – gestir frá Kína hafa hins vegar ekki getað farið í vélsleðaferðir þar sem þá skortir leyfi til aksturs í Finnlandi.
Þeir sem standa fyrir skipulögðum vélsleðaferðum í Lapplandi segjast geta selt þær öllum frá Austur-Asíu nema Kínverjum. Það verði að fara með þá í sérstaka, dýrari leiðangra sem ekki séu eins mikið í tengslum við náttúruna.
Í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE segir að ekki sé auðvelt að stjórna ökutæki í Lapplandi jafnvel þótt menn hafi gilt ökuskírteini. Í miklu frosti sé erfitt að starta bílum, bílrúður séu ísaðar, vegir hálir og hálf-villt hreindýr séu á vegum, þau geti verið mjög erfitt að greina í snjókomu.
Í bígerð er að þjálfa kínverska ökumenn í vetrarakstri heimsæki þeir Finnland. Miðstöð bílatrygginga í Finnlandi og öryggismiðstöð í akstri vinna nú að gerð leiðbeininga um vetrarakstur sem þýddar verða á mörg tungumál, þar á meðal kínversku, og dreift á hótel og aðra staði sem þjóna ferðamönnum.
Af hálfu talsmanna þess að finnsku lögunum sé breytt í þágu kínverskra ökumanna er sagt að það sé hættulegra fyrir Finna að sitja undir stýri í Peking en fyrir Kínverja að gefa i á finnskum vegum.