
Yfirkjörstjórn Hvíta-Rússlands segir að sitjandi forseti landsins, Alexander Lukasjenko, hafi verið endurkjörinn með 80% atkvæða í kosningum sunnudaginn 9. ágúst.
Helsti mótframbjóðandi hans, Svetlana Tikhanouskaja, 37 ára fyrrverandi enskukennari, fékk 9,9% atkvæða. Þrír aðrir frambjóðendur fengu innan við 2% hver. Kjörsókn var 84%.
Svetlana Tikhanouskaja efndi til blaðamannafundar mánudaginn 10. ágúst og hafnaði úrslitum kosninganna. „Yfirvöldin ættu að huga að því hvernig þau geta afhent okkur völd sín á friðsamlegan hátt,“ sagði hún. „Ég lít á sjálfa mig sem sigurvegara í kosningunum.“
Fjöldamótmæli brutust út um allt Hvíta-Rússland og þar á meðal í höfuðborginni Minsk þegar opinber útgönguspá sagði að Lukasjenko yrði forseti landsins sjötta kjörtímabilið í röð. Hófust mótmælin að kvöldi kjördags og stóðu fram undir morgun 10. ágúst.
Lögreglega beitti miklu afli til að brjóta mótmælin á bak aftur og féll að minnsta kosti einn í valinn en 300 manns voru handtekin víðs vegar um landið að sögn mannréttindahópsins Viasna. Innanríkisráðuneyti Hvíta-Rússlands sagði að 3.000 hefðu verið handteknir.
Erlendir fréttaskýrendur segja ákaflega sjaldgæft að nokkur mótmæli séu yfirleitt í Hvíta-Rússlandi. Á hinn bóginn hafi að minnsta kosti 60.000 manns sótt suma kosningafundi Svetlönu Tikhanouskaju. Þess vegna sé fráleitt að trúa úrslitatölunum í kosningunum.
Stjórnmálamenn í vesturhluta Evrópu segja að greinilega sé um kosningasvindl að ræða í Hvíta-Rússlandi. Engir erlendir eftirlitsmenn fengu leyfi til að fylgjast með framkvæmd kosninganna að þessu sinni.
Eftir hrun Sovétríkjanna varð Hvíta-Rússland að sjálfstæðu ríki árið 1994 og síðan hefur Lukasjenko farið með öll völd í landinu, er hann gjarnan kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“. Hann hefur lagt áherslu á náin efnahagsleg tengsl við Rússa en í aðdraganda kjördags sakaði forsetinn Kremlverja undir forystu Vladimír Pútins Rússlandsforseta um að senda óeirðaseggi á vegum njósnastofnunar rússneska hersins, GRU, til Hvíta-Rússlands í því skyni að stofna til óeirða ef ekki hryðjuverka.