Home / Fréttir / Hvíta-Rússland: Svetlana Tsikhanouskaja biðlar til leiðtogaráðs ESB

Hvíta-Rússland: Svetlana Tsikhanouskaja biðlar til leiðtogaráðs ESB

Svetlana Tsikhanouskaja, baráttukona gegn Alexander Lukasjenko, forseta Hvíta-Rússlands.
Svetlana Tsikhanouskaja, baráttukona gegn Alexander Lukasjenko, forseta Hvíta-Rússlands.

Svetlana Tsikhanouskaja, baráttukona gegn Alexander Lukasjenko, forseta Hvíta-Rússlands, hvetur leiðtoga ESB-ríkjanna til að „styðja vakninguna“ í landi sínu og virða vilja Hvít-Rússa og reiði þeirra eftir forsetakosningarnar 9. ágúst þar sem hún tapaði fyrir Lukaskjenko. Forsetinn og stjórn hans eru sökuð um kosningasvindl í daglegum mótmælaaðgerðum frá kjördegi.

Tsikhanouskaja flutti ávarp á myndbandi frá dvalarstað sínum í Litháen. Tilefni orða hennar nú er fundur leiðtogaráðs síðar miðvikudaginn 19. ágúst. Til fundarins er boðað sérstaklega nú vegna ástandsins í Hvíta-Rússlandi.

ESB á að gera allt í þess valdi til að koma í veg fyrir átök í Hvíta-Rússlandi en jafnframt taka af skarið um að ekki vaki fyrir sambandinu á stækka áhrifasvæði sitt, sagði Wolfgang Schäuble, forset þýska þingsins, Bundestag, við þýsku fréttastofuna DW þriðjudaginn 18. ágúst. Schäuble er reynslumesti, starfandi stjórnmálamaður í Þýskalandi og áhrifamaður innan flokks kristilegra demókrata (CDU), flokks Angelu Merkel.

Schäuble segir ekki unnt fyrir ESB að sitja hjá: „Vegna þess að öll sjáum við að mál geta ekki gengið svona áfram í Hvíta-Rússlandi.“

Hann efast ekki um að dagar Alexanders Lukasjenkos á forsetastóli Hvíta-Rússlands séu taldir:

„Þegar einræðisherra lendir í öngstræti er best að finna aðra leið án frekara ofbeldis. Þá er jafnframt augljóst að stjórn Hvíta-Rússlands getur ekki haldið áfram á sömu braut og til þessa.“

Schäuble segir að ESB beri einnig „ábyrgð“ gagnvart nágrönnum sínum. Þegar hann fjallaði um afstöðuna til Rússlands og bandalagið milli ráðamanna í Moskvu og Minsk áréttaði Schäuble að ESB vildi ekki stækka áhrifasvæði sitt.

Í ávarpi sínu hvatti Tsikhanouskaja ESB-leiðtogana til að leggja ekki blessun sína yfir „kosningasvindlið“ í Hvíta-Rússlandi enda nyti Lukasjenko engrar virðingar hvorki á heimavelli né annars staðar.

Tsikhanouskaja (37 ára) var enskukennari áður en hún fór í framboð eftir að eiginmaður hennar var fangelsaður fyrir framboð sitt. Hún ávarpaði ESB-leiðtogana á ensku og sagði meðal annars:

„Í borgum og bæjum hvarvetna í Hvíta-Rússlandi fór fólk út á götur og torg til að verja atkvæði sitt en mátti þola grimmilegar barsmíðar, handtökur og pyntingar af hálfu stjórnar sem reynir í örvæntingu að halda í völd sín.“

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …