
Samskipti stjórnvalda í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi versnuðu miðvikudaginn 29. júlí þegar 33 rússneskir karlmenn voru handteknir við Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands.
Mennirnir eru opinberlega sakaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk og segja yfirvöld í Minsk að þeir séu í Wagner-hópnum, einkarekinni vopnaðri sveit sem tengist Kremlverjum, valdhöfum Rússlands. Er fullyrt að þeir hafi komið til Hvíta-Rússlands í þeim tilgangi að koma að illu af stað innan lands fyrir forsetakosningarnar sunnudaginn 9. ágúst. Þá segir að fyrir í landinu hafi verið um 200 menn úr þessum undirróðurshópi.
Þýska fréttastofan DW ræddi við Denis Korotkov, rannsóknarblaðamanna við rússneska blaðið Novaja Gazeta, hann sagði að minnsta kosti helming mannanna tengjast Wagner-hópnum. Korotkov, sem hótað hefur verið lífláti vegna rannsókna hans á hópnum, sagðist hafa sannanir fyrir þessu, ekki aðeins rússnesku vegabréfin sem sýnd voru í sjónvarpi Hvíta-Rússlands heldur fleiri skjöl í sinni vörslu.
Dmitríj Utkin, fyrrverandi foringi í GRU, njósnastofnun rússneska hersins, stjórnar Wagner-hópnum. Merki um aðgerðir hópsins hafa sést í austurhluta Úkraínu, Sýrlandi og nú síðast í Líbíu. Vopnaðar sveitir af þessu tagi eru bannaðar í Rússlandi en þær starfa þó þar, oft með fjárstuðningi ríkisins. Opinberlega er látið eins og engir svona málaliðar starfi í Rússlandi en fyrir hendi er óbein sönnun fyrir því að rússneska varnarmálaráðuneytið styðji Wagner-hópinn.
Rússnesku karlmennirnir drógu að sér athygli yfirvalda á heilsuhæli skammt frá Minsks af því að þeir skáru sig úr hópi annarra rússneskra ferðamanna með því klæðast „búningi að sið hermanna“ og drukku ekki áfengi, sagði ríkisrekna fréttastofan BelTA í Hvíta-Rússlandi.
Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, sagði fimmtudaginn 30. júlí að margir karlar frá Hvíta-Rússlandi sem kæmu til Rússlands væru í svipuðum fötum, skæru sig úr og drykkju ekki áfengi. Þeir brytu ekki nein lög með því. Degi síðar sagðist hann vænta þess að mönnunum yrði fljótlega sleppt.
„Óverðskulduð handtaka 33 rússneskra ríkisborgara fellur ekki innan samskiptaramma bandamanna,“ sagði hann á fjarfundi með blaðamönnum föstudaginn 31. júlí. „Við væntum þess að bandamenn okkar í Hvíta-Rússlandi bindi tafarlaust enda á þetta ástand og sleppi ríkisborgurum okkar.“
Fréttaskýrendur segja að handtökuna beri að á undarlegum tíma. Alexander Lukashenko hefur verið forseti Hvíta-Rússlands í 26 ár, síðan 1994. Hann býður sig nú í sjötta sinn fram sem forseta og á meira undir högg að sækja en nokkru sinni. Fullyrðingar um vandræði hans styðjast ekki við neinar kannanir en frambjóðendur andstæðinga hans njóta óvænts stuðnings, einkum á fjöldafundum undanfarna daga.
Svetlana Tikhanovskaja er eini frambjóðandinn sem nú hefur leyfi til að keppa við forsetann. Eiginmaður hennar er Sergei Tikhanovski, bloggari sem bauð sig fram en var fangelsaður. Þá fengu Viktor Babariko, fyrrverandi forstjóri banka í meirihlutaeigu Rússa, og Valeríj Tsepkalo, fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum, ekki leyfi til að bjóða sig fram.
Tikhanovski liggur nú undir grun rannsóknarlögreglu í Minsk fyrir aðild að komu rússnesku málaliðanna. Kunna fullyrðingar í þá veru að leiða til þess að eiginkonu hans verði bannað að efna til framboðsfunda til að stöðva straum mannfjölda á þá. Lukashenko kallaði öryggisráð sitt til sérstaks fundar eftir handtöku Rússanna og þar var farið yfir ráðstafnir til að hindra yfirvofandi árás hryðjuverkamanna og meðal annars ákveðið að herða eftirlit á fjöldafundum, þar á meðal kosningafundum.
Ef til vill vakir ekki aðeins fyrir Lukashenko að þrengja að keppinaut sínum heldur einnig að skaprauna Vladimir Pútin Rússlandsforseta sem vill ná tökum á Hvíta-Rússlandi. Þá kann forseti Hvíta-Rússlands að vilja vekja athygli ráðamanna á Vesturlöndum – best sé að hafa vara á sér gagnvart Rússum.
Áróðursmenn forseta Hvíta-Rússlands segja að handtaka Rússanna sýni að andstæðingar forsetans séu í raun handbendi Kremlverja. Sjálfur hefur Lukashenko nokkrum sinnum varað við því að undirróðri frá útlöndum og þar með beint spjótum að ráðamönnum í Moskvu.
Rússneski sendiherrann í Minsk segir að Rússarnir 33 vinni fyrir rússneskt öryggisfyrirtæki. Þeir hafi einfaldlega misst af flugvél sinni frá Minsk. Rannsóknarblaðamaður Korotkov telur að mennirnir hafi verið að leið til átakasvæðanna í Sýrlandi og Líbíu og orðið að leggja lykkju á leið sína vegna COVID-19-faraldursins. Aðrir rannsóknarblaðamenn taka undir þetta.
Hann lýsir á hinn bóginn efasemdum um opinberar ásakanir um að fyrir mönnunum hafi vakað að hleypa upp kosningabaráttunni. Þeir sem sitja inni séu „vélbyssuhermenn, sprengjukastarar, bílstjórar“, venjulegir landhermenn sem hafi enga þekkingu til að sinna flókinni undirróðursstarfsemi.