
Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi kröfðust þess sunnudaginn 17. október að Nicolas de Lacoste, sendiherra Frakka, yfirgæfi landið mánudaginn 18. október. Engin skýring var gefin.
Megi marka fréttir fjölmiðla í Hvíta-Rússlandi hitti sendiherrann aldrei Alexander Luskasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands, til að afhenda honum trúnaðarbréf sitt.
Franska ríkisstjórnin hefur ekki frekar en ríkisstjórnir annarra ESB-landa viðurkennt Alexander Lukasjenko sem réttkjörinn forseta Hvíta-Rússlands eftir kosningarnar í ágúst 2020 þar sem hann bauð sig fram í sjötta skipti.
Upplýsingafulltrúi franska sendiráðsins í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, sagði við AFP-fréttastofuna að sendiherrann hefði horfið á braut mánudaginn 18. október. Hann hefði kvatt starfslið sendiráðsins og sent Hvít-Rússum kveðju á myndbandi sem verði birt á vefsíðu sendiráðsins þriðjudaginn 19. október.
Af hálfu ESB var gripið til refsiaðgerða gegn stjórn Lukasjenkos þegar hún hóf að beita almenning hörkulegu valdi til að kveða niður mótmæli þar í fyrra vegna ásakana um að Lukasjenkó hefði gerst sekur um kosningasvindl í forsetakosningunum 9. ágúst 2020.
Lukasjenko og stjórn hans hefur barið niður öll mótmæli með fangelsunum á stjórnarandstæðingum sem talið er að sæti pyntingum. Allir opinberir stjórnarandstæðingar eru annað hvort í haldi yfirvalda eða flúnir land.
Leiðtogar ESB-landanna saka Lukasjenko um skipuleggja flugferðir með farandfólk frá Mið-Austurlöndum til Hvíta-Rússlands og reka fólkið síðan að landamærum Lettlands, Litháens og Póllands til að skaprauna stjórnvöldum þar og innan ESB.
Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, hvatti mánudaginn 18. október til þess á fundi utanríkisráðherra ESB-ríkjanna að gripið yrði til enn harðari efnahagslegra refsinga gegn Lukasjenko og stjórn hans. Ráðherrann taldi að til dæmis mætti setja bann á flugfélag Hvíta-Rússlands, Belavia.
Taldi ráðherrann nauðsynlegt að sauma að flugfélaginu og svokölluðum ferðaskrifstofum sem stæðu að flutningi farandfólks til Hvíta-Rússlands til að nota í átökum við nágrannaþjóðirnar.