
Flugmenn þotu Ryanair á leið frá Grikklandi til Litháens voru sunnudaginn 23. maí neyddir til að lenda vélinni í Minsk í Hvíta-Rússlandi þar sem lögreglumenn handtóku blaðamann, gagnrýnan á Alexander Lukasjenko forseta og stjórn hans. Sögðu andstæðingar Lukasjenkos að maðurinn væri í haldi á Minsk-flugvelli.
Stjórnvöld í Litháen hafa óskað eftir því að ríki í NATO og ESB láti handtöku blaðamannsins sig varða og segja hana „ógn við almennt alþjóðaflug“.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði á Twitter að það gengi gegn öllum reglum að neyða Ryanair-vélina að lenda í Minsk:
„Allir farþegar eiga tafarlaust að fá tækifæri til að halda áfram ferð sinni til Vilnius og tryggja verður öryggi þeirra,“ segir hún.
Á Telegram-samfélagsmiðlinum Nexta í Litháen kom fram að leitað hefði verið að Roman Protasevitsj (26 ára), fyrrverandi ritstjóra Nexta, um borð í vélinni og hann handtekinn.
Svetlana Tsikhanouskaja, útlægur leiðtogi hvít-rússnesku stjórnarandstöðunnar, lýsti Protasevitsj sem blaðamanni, ljósmyndara, bloggara og aðgerðarsinna. Hans biði dauðarefsing í Hvíta-Rússlandi.
Á Nexta stjórnaði hann flutningi frétta og tilkynninga síðsumars 2020 þegar múgur og margmenni tók þátt í mótmælum gegn Lukasjenko með ásökunum um svindl í forsetakosningunum 9. ágúst 2020. Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi segja Protasevitsj „öfgamann“. Hann sé einstaklingur sem taki þátt í „hryðjuverkastarfsemi“. Þá hafði hann alið á hatri í garð lögmætra stjórnvalda lands síns.
Roman Protasevitsj er nú búsettur í Litháen. Hann var á heimleið frá Grikklandi þar sem honum hafði verið boðið að taka þátt í árlegu Delphi Forum. Það er alþjóðleg ráðstefna þar sem stjórnmálamenn og sérfræðingar ræða stjórnmál og efnahagsmál.
Gríska utanríkisráðuneytið segir að Protasevitsj hafi verið í hvít-rússensku sendinefndinni undir formennsku Svetlönu Tikhanovskaju. Ráðuneytið fordæmir að flugmenn vélarinnar hafi verið neyddir til að lenda í Minsk. „Í vélinni var 171 farþegi, þeirra á meðal 11 grískir ríkisborgarar. Þessi aðgerð sem stofnaði lífi allra farþeganna í hættu er forkastanleg,“ segir ráðuneytið í Aþenu.
Ríkisfréttastofan í Minsk segir að forsetinn sjálfur, Aleksander Lukasjenko, hafi skipað orrustuvélum að fylgja Ryanair-vélinni til flugvallarins í Minsk með þeim rökum að um borð væri „öryggisógnvaldur“.
Fréttir frá Minsk-flugvelli eru óljósar eftir að vélin á leið frá Aþenu til Vilnius hvarf af flugsíðunni Flightradar24. Opinber fréttastofa Hvíta-Rússlands, Belta, sagði vélinni hafa verið lent í Minsk vegna sprengjuhótunar. Síðar var skýrt frá að engin sprengja hefði fundist en enn væri brottför vélarinnar frá Minsk óljós.
Þýska utanríkisráðuneytið krefst þess að stjórnvöld í Minsk skýri tafarlaust ástæður þess að flugmennirnir voru neyddir til lendingar og handtöku Protasevitsj.
Gitanas Nauseda, forseti Litháens, sagði á Twitter: „Einstæður atburður! Almenn farþegavél á leið til Vilnius neydd til að lenda í Minsk. Stjórnvöld þar að baki þessari viðbjóðslegu aðgerð. Ég krefst þess að Roman Protasevitsj verði tafarlaust sleppt.“
Forsetinn sagði einnig í skeyti til Reuters-fréttastofunnar:
„Ég hvet bandamenn innan NATO og ESB til að bregðast tafarlaust við þessari ógn hvít-rússneskra stjórnvalda við almennt, alþjóðlegt farþegaflug. Alþjóðasamfélagið verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að hindra að þetta endurtaki sig.“
Fréttaskýrendur segja að með því að knýja farþegavélina til lendingar hafi stjórn Lukasjenkos stigið skrefi lengra en nokkru sinni fyrr gegn stjórnarandstæðingum og fjölmiðlamönnum.
Frá því í ágúst 2020 hefur lögregla handtekið um 34.000 manns og svipt frelsi í Hvíta-Rússlandi fyrir stjórnmálaafskipti. Þá hafa tugir þúsunda sætt líkamlegu ofbeldi af hálfu starfsmanna öryggisstofnana.