Home / Fréttir / Hvíta-Rússland: Baráttukona hafnar brottvísun – Lukasjenko segir Rússland næst

Hvíta-Rússland: Baráttukona hafnar brottvísun – Lukasjenko segir Rússland næst

Maria Kolesnikova, stjórnarandstæðingur í Hvíta-Rússlandi.
Maria Kolesnikova, stjórnarandstæðingur í Hvíta-Rússlandi.

Maria Kolesnikova, stjórnarandstæðingur í Hvíta-Rússlandi, reif vegabréf sitt við landamæri Úkraínu til að hindra nauðungarflutning úr landi. Þetta fullyrða

Anton Rodnenkov og Ivan Kravtsov sem segja hvítrússnesku öryggislögregluna hafa rekið sig úr landi. Þeir eru báðir félagar í hreyfingu stjórnarandstæðinga.

Samkvæmt frásögn þeirra var Kolesnikovu þröngvað inn í aftursæti á bíl. Hún hrópaði að hún færi hvergi. Á blaðamannafundi í Úkraínu þriðjudaginn 8. september sagði Rodnenkov: „Þegar hún sá vegabréfið sitt sem var í bílnum reif hún það strax í sundur og kastaði því út um gluggann.“

Í frétt Euronews segir að Kolesnikova, sem situr í Sameingarráðinu, samstarfsvettvangi stjórnarandstæðinga í Hvíta-Rússlandi til að auðvelda viðræður við Alexander Lukasjenko, þaulsetinn forseta landsins, um að hann láti af embætti, var handtekinn mánudaginn 7. september í höfuðborginni Minsk.

Þriðjudaginn 8. september var henni og Rodnenkov og Kravtsov ekið að landamærum Úkraínu og þeim skipað að hypja sig yfir þau. Kolesnikova neitaði og varð eftir í höndum hvítrússneskra yfirvalda þegar félagar hennar fóru að fyrirmælunum.

„Maria Kolesnikova er hetja. Eftir 12 tíma yfirheyrslur – ekki er ljóst hvar – krafðist hún enn réttlætis, krafðist lögfræðings. Mér skilst að sérsveitin hafi farið með hana. Við landamærin reif hú vegabréfið og þess vegna hafði hún enga löglega leið til að fara til útlanda. Þetta var mjög snjöll ákvörðun.“

Frásögn hvítrússneskra yfirvalda er á þann veg að Mariu Kolesnikovu hafi verið „kastað út úr bifreið á ferð“ áður en henni var ekið yfir landamærin til Úkraínu og verið handtekin.

Frá Litháen berast fréttir um að yfirvöld þar óttist að Lukasjenko sé að afsala fullveldi Hvíta-Rússlands í hendur Rússa. Hann eigi fund með Vladimir Pútin Rússlandsforseta í vikunni og þar láti Lukasjenko undan margra ára kröfum Pútins um nánari samruna ríkjanna. Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, segir: „Erfitt er að stöðva ferlið.“

Lukasjenko: Kannski setið of lengi

Í rússneskum ríkisfjölmiðlum var haft eftir Lukasjenko þriðjudaginn 8. september: „Já, ég hef kannski setið of lengi.“ Hann áréttaði þó að hann væri eini maðurinn sem gæti veitt landinu forystu.

Forsetinn er sagður hafa endurtekið þá hugmynd að ef til vill yrði gengið til kosninga að nýju eftir breytingar á stjórnarskránni. Stjórnarandstæðingar segja að með þessu vilji Lukasjenko aðeins draga mál á langinn í von um að fjari undan mótmælendum.

Lukasjenko sagði einnig að „forystumenn Rússlands“ teldu að félli Hvíta-Rússland núna kæmi næst að Rússlandi. Hann kallaði Pútin einnig „eldri bróður“ sinn og sakaði Bandaríkjamenn og Telegram-orðsendingakerfið um að ýta undir óöldina í Hvíta-Rússlandi.

„Hvernig ætlið þið [Rússar] að snúast gegn Telegram-boðleiðunum?“ spurði hann. „Getið þið lokað þessum Telegram-boðleiðum? Enginn getur það, jafnvel ekki þeir sem fundu upp allan þennan kóngulóarvef – Bandaríkjamenn. Þið sjáið hvað gerist þar. Telegram-boðleiðirnar gegna lykilhlutverki þar.“

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …