Home / Fréttir / Hvatt til samstarfs Norður-Íshafsstrandríkja gegn Rússum

Hvatt til samstarfs Norður-Íshafsstrandríkja gegn Rússum

Teikningin er af vefsíðu Jyllasnds-Posten.
Teikningin er af vefsíðu Jyllasnds-Posten.

Peter Viggo Jakobsen lektor, við danska Forsvarsakademiet og prófessor við Center for War Studies við Syddansk Universitet (SDU) birtir grein á vefsíðu Jyllands-Posten laugardaginn 1. júní þar sem hann segir að að þörf sé á nýjum samningi um öryggismál á norðurskautssvæðinu.

Hann segir að vaxandi umsvif Kínverja á svæðinu ógni stöðugleika þar. Málið verði ekki leyst með því að gagnrýna Bandaríkjamenn fyrir að benda á vandamálið. Heldur verði strandríkin fimm við Norður-Íshaf: Bandaríkin, Kanada, Danmörk/Grænland, Noregur og Rússland að efla samstarf sitt í öryggismálum til að leysa vandann.

Prófessorinn segir tilhæfulaust að halda því fram að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi brotið gegn leikreglum Norðurskautsráðsins 6. maí sl. þegar hann gagnrýndi Rússa og Kínverja. Það megi ekki tala um öryggismál í ráðinu og þess vegna sé réttmætt að saka Pompeo um hefja kalt stríð á norðurslóðum. Pompeo hafi þó ekki gert annað en benda á að framganga Rússa og Kínverja á þessum slóðum geti leitt af sér kalt stríð sé haldið áfram á sömu braut.

Í greininni er minnt á að danska ríkisstjórnin hafi árið 2008 í samvinnu við grænlensku heimastjórnina haft frumkvæði að Ilulissat-yfirlýsingu strandríkjanna fimm við Norður-Íshaf. Þar lofuðu þau að semja um lausn ágreinings um markalínur sín á milli á landgrunni Norður-Íshafsins, þau hétu að auka samstarf sitt um leit og björgun, umhverfisvernd og öryggi á sjóleiðum og höfnuðu öllum hugmyndum um hnattrænan norðurskautssamning eða stjórn Sameinuðu þjóðanna á svæðinu.

Prófessorinn telur að Ilulissat-yfirlýsingin hafi verið mikilsvert framlag til utanríkismála og komið í veg fyrir hættuna á köldu stríði mill strandríkjanna fimm, lagt grunn að samvinnu á norðurskautssvæðinu sem hafi staðið af sér vaxandi spennu milli Rússa og Vestmanna. [Þess má geta að Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra Íslands, mótmælti þessu fimm-ríkja frumkvæði harðlega og sagði það spilla samstarfsanda í Norðurskautsráðinu.]

Samstarfið á norðurskautssvæðinu nær ekki til öryggismála. Prófessorinn segir að þess vegna dugi það ekki sem andsvar við ögruninni gegn stöðugleika á norðurslóðum sem felist í auknum umsvifum Kínverja þar. Til marks um þau nefnir hans til dæmis ferðir kínverska ísbrjótsins Snjódrekans og í fyrra hafi Snjódrekanum II verið hleypt af stokkunum.

Í kjölfar vísindamanna sigli tilboð Kínverja um fjárfestingar og viðskiptasamninga, sameiginleg verkefni með heimamönnum um námu- og olíuvinnslu auk mannvirkjagerðar. Kínverjar eigi áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, líti á sjálfa sig sem „nágranna“ norðurslóða, lýsi silkileiðinni fyrir norðan Rússland sem „strategískri“ og krefjist „réttmætrar“ hlutdeildar í náttúruauðlindum norðurslóða.

Í greininni er talið að Kínverjar ætli að fara sömu leið á norðurslóðum og í Afríku. Fyrst komi vísindamenn, síðan viðskipti og loks hermenn til að gæta hagsmunanna.

Ekkert eitt strandríkjanna fimm við Norður-Íshaf getur að mati danska prófessorsins staðið í vegi fyrir Kínverjum. Þau þurfi að taka höndum saman. Í því sambandi megi velta fyrir sér nýrri Ilulissat-yfirlýsingu um samstarf í öryggismálum. Þetta skipti Dani og Grænlendinga miklu til að bregðast við kínverskum þrýstingi og „panda-diplómatíu“ eins og þar segir.

Með samstarfi í þessa veru megi einnig stuðla að betri samskiptum Rússa og vestrænu strandþjóðanna fjögurra. Þau hafi versnað frá árinu 2014 og ríkin fimm túlki nú ráðstafanir hins aðilans í hernaðarmálum á þessum slóðum sem ögrun þótt flestar þeirra séu í þágu aukinna varna. Þennan vítahring verði að rjúfa og það mætti gera með skýrum leikreglum um hernaðarleg málefni auk þess sem vestræn fyrirtæki létu að sér kveða við fjárfestingar á heimskautasvæðum Rússlands. Með þeim ykist gagnkvæmt traust og dregið yrði úr þörf Rússa fyrir kínverska fjárfesta.

Auki vestrænu strandþjóðirnar þrýsting á Rússa er hætta á því að mati danska prófessorsins að ráðamenn í Moskvu neyðist til að leita til valdhafanna í Peking. „Við erum að leið til þeirrar skipunar heimsmála sem einkennist af harðri stjórnmálalegri og efnahagslegri keppni milli Kínverja og Bandaríkjamanna og við þær aðstæður hefur úrslita strategíska þýðingu að skapa hagsmunatengsl við Rússa,“ segir Peter Viggo Jakobsen.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …