Home / Fréttir / Hvatt til aukinnar kafbátaleitar á höfunum umhverfis Ísland

Hvatt til aukinnar kafbátaleitar á höfunum umhverfis Ísland

P-8 eftirlitsvél bandaríska flotans á flugi.
P-8 eftirlitsvél bandaríska flotans á flugi.

Magnus Nordenman, vara-forstöðumaður Brent Scowcroft alþjóðamálastofnunarinnar hjá Atlantic Council í Washington, segir nauðsynlegt að ríki við Norður-Atlantshaf taki höndum saman við kafbátaleit úr lofti til að bregðast við sívaxandi umsvifum rússneskra kafbáta á hafsvæðunum umhverfis Ísland.

Í grein sem hann birti 15. maí bendir hann á að ekki sé aðeins nauðsynlegt að bregðast við fjölgun ferða rússneskra kafbáta út á N-Atlantshaf heldur einnig aukinni árásargetu þeirra. Nú sé t.d. ljóst að unnt era ð skjóta stýriflaugum úr þeim á skotmörk á landi. Þá skipti einnig meira máli en áður að tryggja öryggi á siglingaleiðinni milli N-Ameríku og Evrópu svo að flytja megi liðsauka frá Bandaríkjunum á hættustundu.

Í greininni minnir Nordenman á að í kalda stríðinu hafi kafbátaleitarvélar verið við eftirlit í GIUK-hliðinu, hafsvæðunum frá Grænlandi um Ísland til Bretlands, og annars staðar. Þær hafi hlustað eftir sovéskum kafbátum og verið í viðbragðsstöðu. Í áranna rás hafi floti þessara véla hins vegar orðið að engu í Evrópu. Bretar hafi lagt öllum flugflota sínum árið 2010. Hollendingar hafi selt P-3 Orion-vélar sínar árið 2003 (þær voru reglulega á Keflavíkurflugvelli). Þjóðverjar, Ítalir, Frakkar og Kanadamenn hafi ekki endunýjað þennan flugflota sinn heldur lappað upp á gamlar vélar. Í Evrópu styðjist menn því við vélar frá níunda áratugnum sem muni sinn fífil fegri.

Bandaríkjamenn hafi einnig dregið verulega saman seglin á þessu sviði í Evrópu. Nú haldi þeir aðeins fimm vélum úti þar til kafbátaleitar og eftirlits á hafinu. Þeir hafi horfið með öllu frá Keflavíkurstöðinni árið 2006 en þar hafi verið lykilstaður til eftirlits í GIUK-hliðinu.

Sumt horfir nú til betri áttar að mati Nordenmans. Bretar hafi ákveðið að kaupa P-8 Poseidon eftirlitsvélar og verða fullgildir þátttakendur í gæslu með þeim árið 2020. Bandaríkjamenn hafi áform um að hressa upp á aðstöðuna í Keflavík og senda þangað reglulega P-8 vélar flotans til eftirlits á Atlantshafi. Norðmenn hafi einnig í hyggju að dýpka samstarf sitt við Bandaríkjamenn á þessu sviði.

Greinarhöfundur fagnar þessum skrefum en telur jafnframt að gera verði varanlegri ráðstafanir, Leggur Nordenman til að nýtt verði fordæmi frá því fyrir um áratug þegar 12 NATO-ríki auk Svía og Finna tóku höndum saman við smíði og rekstur langdrægra herflutningavéla af gerðinni C-17.

Leggur hann til að komið verði á samstarfi um kaup á nokkrum flugvélum til eftirlits á hafinu og nauðsynlegum kerfum um borð í þær, þá verði samvinna um þjálfun og æfingar. Með aðild réttra ríkja að samstarfinu væri auðveldlega unnt að nota vélarnar til skiptis í GIUK-hliðinu, á Eystrasalti eða Svartahafi.

Greinin er að hluta reist á nýlegri skýrslu á vegum Atlantic Council.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …