Home / Fréttir / Hvatning Græningja gegn hernaðarbrölti Pútins

Hvatning Græningja gegn hernaðarbrölti Pútins

Joschka Fischer.

Græninginn Joschka Fischer, utanríkisráðherra og varakanslari Þýskalands 1999-2005, segir í grein um umsátur Rússa um Úkraínu að allt bendi til þess að þar komi til styrjaldar. Gerist það verði afleiðingar miklar fyrir Evrópu og spurningar vakni um skipan mála í álfunni og gildi grunnreglnanna sem reistar séu á höfnun valdbeitingar, sjálfsákvörðunarrétti, friðhelgi landamæra og landsyfirráða, reglna sem Evrópuþjóðir hafi lagt til grundvallar í samskiptum sínum frá því að kalda stríðinu lauk.

Ofbeldisfull árás Rússa leiddi til þess að Evrópu yrði að nýju skipt í tvennt, „rússneska Evrópu“ í austri og Evrópu ESB og NATO í vestur og miðhluta álfunnar. Heimsvaldahagsmunir yrðu að nýju andstæða lýðræðishagsmuna ríkja með meginreglur réttarríkisins að leiðarljósi.

Hitt yrði síðan verra að þar sem ekki væri lengur unnt að treysta á orð, loforð, skuldbindingar og sáttmála hæfist endurhervæðing í þágu eigin varna og algjör uppstokkun á efnahagslegum tengslum, einkum á sviði orkumála.

Evrópubúar gætu ekki lengur tekið þá áhættu að vera efnahagslega háðir þeim sem kynnu að misnota tengslin í þágu þrýstings á hættutímum.

Ljóst sé af því ástandi sem nú hefði myndast að Vladimir Pútin stjórni í anda endurskoðunarstefnu. Undir forystu hans láti Rússar ekki við það eitt sitja að una ekki óbreyttu ástandi heldur ógni þeir með hervaldi og beiti því til að breyta ástandinu sér í vil.

Í því felist að að allt sem áunnist hafi með ESB yrði að engu. Afleiðingarnar séu óskiljanlegar og þess vegna algjörlega óviðunandi.

Fischer segir að kröfur Pútins sýni allt að baki umsátrinu um Úkraínu, hann vilji að NATO loki dyrum sínum á þjóðir Austur-Evrópu og Finna og Svía.

Umsátrið sé ekki vegna þess að Rússland verði með NATO-lönd við landamæri sín heldur snúist það um endurreisn rússneska heimsveldisins og tilvistarótta Vladimirs Pútins við að lýðræðið festi sig í sessi og nái til fleiri. Fullveldisrétturinn sé í húfi í Úkraínudeilunni – réttur sérhvers fullvalda ríkis til að velja sér bandamenn og ákveða aðild að bandalögum.

Pútin vilji í örvæntingu afmá niðurlæginguna frá hruni Sovétríkjanna og þar með sögulegu tapi Rússa á hnattrænu valdi. Fyrir honum vaki að endurreisa Rússland.

Þetta gerist ekki nema það bitni á ESB, Rússland hafi aldrei verið heimsveldi án þess að hafa fyrst náð undirtökunum í Evrópu. Nú sé hlutleysi Úkraínu í húfi. Á morgun komi röðin að öðrum fyrrverandi leppríkjum Sovétríkjanna. Síðan birtist drottnunin yfir ESB, Evrópubúar, sem þekki sögu sína, ættu að kannast við mynstrið.

Með þetta í huga megi spyrja: Hvað þarf mikið að gerast áður en Evrópumenn átti sig á hvað sé á seyði? ESB verði sjálft að skipta máli í valdataflinu vilji sambandið halda lífi í heimi þar sem endurnýjuð heimsvaldapólitík og geópólitískt kapphlaup ræður ferðinni. Hvenær ætlar ESB að snúast til varnar fyrir eigin gildi? spyr Fischer.

Hann segir auðvitað augljóst að við þessar aðstæður skipti öryggistrygging Bandaríkjamanna í þágu Evrópu miklu. Evrópa verði hins vegar að auka styrk sinn eigi að viðhalda samstarfinu yfir Atlantshaf. Til að svo verði þurfi Þjóðverjar fyrst og síðast að endurhugsa eigið hlutverk. Landið sé og verði stærsta aðildarland ESB, efnahagslega og að mannfjölda.

Fischer spyr hvort staðan sé virkilega enn sú í Þýskalandi, í ljósi yfirvofandi hættu, að enn ríki sami ágreiningur og í fyrri ríkisstjórn um hvort verja skuli minnst 2% af VLF til varnarmála. Hvort ekki sé mikilvægara að þýska ríkisstjórnin gefi skýra yfirlýsingu um að hún ætli að sýna stuðning við Úkraínu og varnir evrópskra grundvallarreglna? Í því felist skilaboð sem Kremlverjar geti ekki misskilið. Tíminn sé hins vegar brátt útrunninn.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …