
Fastafulltrúi Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) yfirgaf fund öryggisráðs SÞ mánudaginn 6. júní þegar Rússar voru sakaðir um að beita sér þannig í Úkraínu að magna hungurvofu í heiminum.
Í ræðu sem Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, flutti á fundi öryggisráðsins sagðist hann hafa séð gáma fulla af korni og skip föst í höfninni í Odessa í Úkraínu vegna hafnbanns Rússa.
Hann sagði Rússa beita skriðdrekum, sprengjum og jarðsprengjum til að koma í veg fyrir að bændur í Úkraínu gætu ræktað akra sína, vegna þessa hækkaði matvælaverð, fátækt ykist og grafið væri undan stöðugleika víða um heim.
„Rússar bera einir ábyrgð á fæðuskortinum sem við blasir,“ sagði Michel. „Rússar einir.“
Hann sakaði Rússa um að nota fæðu sem „torséða skotflaug gegn þróunarlöndunum“ og sagði að rússneskir hermenn stælu korni á svæðum sem þeir legðu undir sig en skelltu skuldinni á aðra, hann lýsti þessu sem „hugleysi“ og „hreinum og klárum áróðri“.
Ræðan varð til þess að Vassilij Nebenzia, fastafulltrúi Rússa, stóð upp og gekk út af fundi öryggisráðsins.
Rússneski varafastafulltrúinn sagði ummæli Michels svo „dónaleg“ að Nebenzia vildi ekki sitja undir þeim.
Antony J. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók þátt í fjarfundi með samtökum sem vinna að því að tryggja fæðuöryggi í ljósi átakanna í Úkraínu. Blinken sakaði Rússa um að leggja sprengjur í ræktanlegt land sem þeir hefðu hernumið og um að hindra fæðuútflutning Úkraínumanna.
Ráðherrann sagði Kremlverja verða að átta sig á að með stríðsaðgerðum sínum flyttur þeir hungur og hörmungar langt út fyrir landamæri Úkraínu. Afríkumenn yrði sérstaklega illa fyrir barðinu á þessu.
Næstum þriðjungur af hveiti og byggi í heiminum kemur frá Úkraínu og Rússlandi og um helmingur sólblómaolíu.
Á fundi öryggisráðsins lýsti Charles Michel eindregnum stuðningi við Antonio Guterres, aðalritara SÞ, og tilraunir hans til að gera rammasamkomulag um að heimilað yrði að flytja korn frá Úkraínu og tryggt að matvæli og áburð mætti flytja hindrunarlaust á heimsmarkað frá Rússlandi.
Sergij Kjislijtsja, fastafulltrúi Úkraínu hjá SÞ, sagði á fundi öryggisráðsins 6. júní að stjórn lands síns ynni markvisst að því finna leiðir til að forða heiminum undan hungurvofunni. Hún þyrfti hins vegar að geta notað Odessa sem útflutningshöfn. Það yrði að tryggja að Rússar lokuðu ekki siglingaleiðum og réðust á sjálfa borgina.
Fastafulltrúinn sagði þetta brýnt úrlausnarefni þar sem á hvítasunnudag (5. júní) hefðu Rússar skotið fjórum flaugum á verkstæði við Kyív þar sem unnið var að viðgerð á flutningavögnum á korni til hafna í Úkraínu.
Þetta sýndi að ekkert væri að marka allar sögurnar sem Pútin segði þeim fáu sem hann hitti um hve mjög Rússar legðu sig fram um að auðvelda Úkraínumönnum útflutning á hveiti.