Home / Fréttir / Hundruð þúsunda mótmæla framsalsfrumvarpi Í Hong Kong

Hundruð þúsunda mótmæla framsalsfrumvarpi Í Hong Kong

Hundruð þúsunda á götum Hong Kong.
Hundruð þúsunda á götum Hong Kong.

Hundruð þúsunda manna fóru um götur Hong Kong sunnudaginn 9. júní til að mótmæla frumvarpi til framsalslaga sem heimilar yfirvöldum að senda grunaða sakamenn fyrir dómara í Kína.

Mótmælendur hrópuðu „Verndum Hong Kong!“ og „Ekkert framsal til Kína! Engin ólög!“ Þá er þess krafist að æðsti stjórnandi Hong Kong, Carrie Lam, segi af sér.

Mótmælagangan tók sjö klukkustundir og telja skipuleggjendur hennar að ein milljón og þrjátíu þúsund manns hafi tekið þátt í henni á mismunandi stöðum og 240.000 hafi verið saman þegar mest var.

Mannréttindahópar segja að með breytingu á lögunum fái kínversk stjórnvöld heimild til að krefjast framsals fólks frá Hong Kong eða jafnvel til að taka það í gæsluvarðhald sé starf þess tengt starfsemi á meginlandinu eins og Kínverska alþýðulýðveldisins, Kína, er kallað í Hong Kong. Þetta skapi hættu fyrir íbúa Hong Kong.

„Enginn verður öruggur, þeirra á meðal aðgerðarsinnar, mannréttindalögfræðingar, blaðamenn og starfsmenn við félagsþjónustu,“ sagði Sophie Rischardson, stjórnandi Kínadeildar Mannréttindavaktarinnar (Human Rights Watch) í yfirlýsingu miðvikudaginn 6. júní.

Bent er á að réttarvarslan í Kína sé alræmd vegna handtöku án dómsúrskurðar, pyntinga og virðingarleysis fyrir sanngjarnri málsmeðferð.

Embættismenn í Hong Kong segja að dómstólar í Hong Kong eigi lokaorð um framsalsbeiðnir. Þá verði fólk sakað um afbrot sem talin eru tengjast stjórnmálum eða trúmálum ekki framselt.

Frumvarp um auknar framsalsheimildir var flutt af því að yfirvöld í Hong Kong töldu sig ekki hafa heimild til að framselja ungan karl sem var sakaður um að myrða ófríska vinkonu sína þegar þau voru í fríi á Tævan. Sagt var að maðurinn hefði flúið Tævan til Hong Kong í fyrra.

Tævenskir embættismenn vildu aðstoð starfsbræður í Hong Kong við að framselja þann grunaða en í Hong Kong sögðu menn að þeir gætu ekkert gert vegna skorts á framsalssamningi við Tævan.

Yfirvöld á Tævan eru hins vegar andvíg öllum breytingum á framsalslögum í Hong Kong. Þau sögðu föstudaginn 7. maí að þau ætluðu ekki að krefjast framsals á manninum þar sem þau teldu hættu á að frumvarpið sem lægi fyrir í Hong Kong yki líkur á að íbúar þar yrðu teknir þaðan af stjórnvöldum í Kína.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …