Home / Fréttir / Hundruð stuðningsmanna Navalníjs handteknir í mótmælum

Hundruð stuðningsmanna Navalníjs handteknir í mótmælum

 

Þúsundir lýstu stuðningi við Navalníj í Rússlandi.
Þúsundir lýstu stuðningi við Navalníj í Rússlandi.

Tæplega 1.500 mótmælendur voru handteknir í Rússlandi miðvikudaginn 21. apríl þegar þúsundir manna fóru um stræti og torg til að krefjast þess að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalníj fengi mannúðlega meðferð hjá rússneskum fangelsisyfirvöldum. Óttast er um líf Navalníjs sem hefur verið í hungurverkfalli í þrjár vikur til að knýja á um eigin læknismeðferð vegna bakveiki.

Efnt var til mótmælanna sama dag og Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti árlega stefnuræðu sína. Hann var harðorður í garð stjórnvalda á Vesturlöndum og varaði þau við að fara yfir „rauð strik“ sem rússnesk yfirvöld hefðu dregið. Forsetinn minntist ekki frekar en áður á Navalníj eða hvað byði hans.

Handtökur á stuðningsmönnum Navalníjs hófust áður en skipulögðu mótmælin honum til stuðnings hófust. Kira Jarmíjsh og Ljubov Sobol, nánir samstarfsmenn Navalníjs voru tekin föst í Moskvu snemma að morgni 21. apríl.

Jarmíjsh sem sett var í stofufangelsi í janúar eftir mótmæli til stuðnings Navalníj var nú handtekin fyrir utan fjölbýlishúsið þar sem hún býr þegar hún ætlaði að fá sér frískt loft í klukkustund eins og henni er heimilt að gera í stofufangelsinu. Farið var með hana á lögreglustöð þar sem henni var lesin kæra um að hún stæði að ólöglegu mannamóti.

Samstarfsmenn Navalníjs báðu stuðningsmenn hans að hittast á Manezh-torgi í Moskvu, rétt við múra Kremlarkastala. Lögregla hindraði hins vegar mannsöfnuð þar. Þess í stað fór fólk að ríkisbókasafni Rússlands og stóð einnig við Tverskaja-stræti sem liggur að torginu. Báðir hópar gengu síðan um götur Moskvu.

Í heimaborg Pútins, St. Pétursborg, lokaði lögregla aðgangi að Hallartorginu, stóru svæði við Hermitage-safnið. Urðu mótmælendur því að raða sér á breiðgötuna Nevskí Prospect.

Sjálfstæðu rússnesku mannréttindasamtökin OVD sögðu 1.496 hafa verið handtekin í 82 borgum. Flestir voru sviptir frelsi í St. Pétursborg um 600 manns.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …